8. maí 2025
8. maí 2025
Fjarðabyggð þarf að hraða íbúðaruppbyggingu
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Spáð er að íbúum í Fjarðabyggð muni fjölga um 532 næstu fimm árin, sem jafngildir 9,7% fólksfjölgun.
- Til að mæta áætlaðri íbúðaþörf þarf að byggja um 27 fleiri íbúðir árlega en hefur verið gert á undanförnum árum.
- Sveitarfélagið stefnir að úthlutun lóða fyrir allt að 515 íbúðir til að tryggja nægt framboð nýrra íbúða á næstu árum.
Fjarðabyggð hefur samþykkt endurskoðaða húsnæðisáætlun fyrir árið 2025. Þar er gert ráð fyrir að íbúum sveitarfélagsins muni fjölga um 1.124 íbúa á næstu tíu árum, sem samsvarar 20,6% aukningu. Til samanburðar hefur íbúum fjölgað um 280 manns frá árinu 2021 skv. tölum hagstofunnar, eða um 5,6% og um 550 manns síðastliðin tíu ár, sem jafngildir 11,7% vexti. Íbúafjölgun árið 2024 reyndist 15 manns færri en spá sveitarfélagsins fyrir síðasta ár.
Athygli vekur að samkvæmt tölum Hagstofunnar fækkaði íbúum Fjarðabyggðar árið 2022. Þjóðskrá Íslands sýnir hins vegar að íbúum hafi fjölgað um 77 á sama tímabili. Samkvæmt skráningu Þjóðskrár hefur íbúum fjölgað um 395 frá árinu 2021, sem eru 115 fleiri en tölur Hagstofunnar gefa til kynna. Rétt er að benda á í þessu samhengi að mismunurinn stafar af ólíkri nálgun þessara stofnana við mælingar á mannfjölda. Ljóst er þó að talsverð íbúafjölgun hefur átt sér stað í sveitarfélaginu undanfarin ár.
Uppbygging í fullum gangi og aukin eftirspurn eftir húsnæði
Samkvæmt húsnæðisáætlun Fjarðabyggðar er gert ráð fyrir að þörf sé fyrir um 52 nýjar íbúðir á ári, eða samtals 246 á næstu fimm árum og 524 á næstu tíu árum. Uppbygging hefur verið nokkuð öflug síðustu ár í samanburði ef horft er yfir lengra tímabil og fjölgaði fullbúnum íbúðum að meðaltali um 23 á ári síðustu fimm árin. Á fimm ára tímabilinu þar á undan var fjölgunin hins vegar mun minni, eða að meðaltali aðeins um tvær íbúðir á ári.
Byggja þarf fleiri íbúðir ef spár ganga eftir
Samkvæmt nýjustu tölum HMS voru 50 íbúðir í byggingu í Fjarðabyggð í mars 2025 og hefur fjöldi íbúða í byggingu farið stöðugt vaxandi á milli undanfarinna talninga síðastliðin tvö ár. Á sama tíma í fyrra voru 16,3% færri íbúðir í byggingu og fyrir tveimur árum, í mars 2023, voru þær 31% færri en teljast nú. Myndin hér að neðan sýnir að mikill meirihluti íbúða eru á fyrri stigum framkvæmda, það er á stigi 3 eða lægra og því ekki orðnar fokheldar.
Fjöldi íbúða sem nú eru í byggingu dugir ekki til að mæta þeirri þörf sem sveitarfélagið gerir ráð fyrir á næstu tveimur árum. Þrátt fyrir jafnan vöxt í uppbyggingu á síðustu árum eru merki um að auka þurfi í uppbyggingu nýrra íbúða til að ná markmiðum. Til að mæta áætlaðri íbúðaþörf þyrfti því að bæta við um 25 íbúðum árlega til viðbótar við þá uppbyggingu sem á sér stað.
Fjarðabyggð leggur áherslu á húsnæðisöryggi og fjölbreytt búsetuúrræði
Fjarðabyggð hefur sett sér það meginmarkmið að tryggja öryggi og stöðugleika í húsnæðismálum íbúa og leggur áherslu á að skipulag, þjónusta og uppbygging taki mið af þörfum fólks á ólíkum æviskeiðum. Sveitarfélagið vill tryggja húsnæðisöryggi óháð efnahag, jafnan aðgang að þjónustu og bæta samgöngur til að ná þessum markmiðum. Jafnframt er lögð áhersla á að endurnýja og þróa skipulag íbúðarhverfa þannig að nægt framboð sé af lóðum sem mæta breytilegri eftirspurn.
Fjarðabyggð vill sérstaklega styðja við uppbyggingu húsnæðis fyrir aldraða og fólk sem vill breyta búsetu vegna breyttra þarfa. Til að ná því markmiði hyggst sveitarfélagið m.a. veita afslátt af gatnagerðargjöldum á árinu 2025, hvetja félög og félagasamtök til þátttöku í byggingarframkvæmdum og bjóða stofnstyrki ef slíkar áætlanir fara af stað. Sveitarfélagið telur mikilvægt að geta gripið inn í húsnæðismál þegar markaðurinn bregst og vill skapa traustan ramma fyrir framtíðarbúsetu íbúa á öllum aldri og af ólíkum forsendum.
Lóðaframboð styður við uppbyggingu næstu 5 ára
Fjarðabyggð hefur nú skipulagt lóðir fyrir 515 íbúðir á næstu 5 árum. Samkvæmt úthlutunaráætlun sveitarfélagsins er nú þegar nægt framboð byggingarhæfra lóða og ætti lóðaframboð því að mæta vel áætlaðri íbúðaþörf á næstu árum gangi úthlutunaráætlanir eftir.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS