4. september 2025
5. september 2025
Fimm ár frá Bræðraborgarstíg – 12 af 13 úrbótatillögum komnar til framkvæmda eða í vinnslu
HMS, Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu, Samtök iðnaðarins og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins stóðu fyrir ráðstefnunni Brunavarnir og öryggi til framtíðar sem haldin var þann 4. september. Ráðstefnan var haldin vegna þess að fimm ár eru liðinn frá eldsvoðanum á Bræðraborgarstíg sem var mannskæðasti bruni þessarar aldar.
Á ráðstefnunni var gerð grein fyrir stöðu umbótavinnu sem ráðist var í eftir brunann, en í honum létust þrír einstaklingar á þrítugsaldri, nokkrir slösuðust og húsið eyðilagðist nær alveg.
12 af 13 tillögum komnar til framkvæmda eða eru í vinnslu
Í kjölfar brunans hófst víðtæk vinna þar sem stofnanir og atvinnulíf tóku höndum saman til að efla öryggi og bæta eftirlit. HMS leiddi þverfaglegan samráðsvettvang sem árið 2021 lagði fram þrettán úrbótatillögur beint til þriggja ráðuneyta.
Nú, fimm árum síðar, hafa 12 af 13 úrbótatillögum annað hvort komist til framkvæmda eða eru í vinnslu samkvæmt samantekt HMS sem kynnt var á ráðstefnunni. Tillaga 13, sem ekki hefur enn komist á framkvæmdastig, felst í að ráðist verði í endurskoðun á lögum um brunatryggingar með það að markmiði að auka hvata húseigenda til að sinna brunavörnum í gegnum brunatryggingar. Bent var á ráðstefnunni að horfa mætti til jákvæðrar reynslu Svía í þeim efnum.
Halda þarf áfram eftirfylgni
Hér fyrir neðan er yfirlit yfir tillögurnar 13. Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist á þeim tíma sem liðinn er frá brunanum, er brýnt að halda áfram eftirfylgni með þessum verkefnum. Brunavarnir eru ekki tímabundin vinna heldur viðvarandi verkefni sem snertir allt samfélagið.