6. mars 2025
14. febrúar 2025
Enn fá uppbyggingarverkefni sem fara af stað
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Samkvæmt mælaborði íbúða í byggingu eru nú 6.456 íbúðir skráðar í byggingu um land allt. Þar af hafa verið gefin út byggingarleyfi eða samþykkt byggingaráform fyrir 881 íbúð, en framkvæmdir við þær eru ekki hafnar. Af íbúðum í byggingu eru um 81% þeirra í fjölbýlishúsum, 19% í sérbýli. Það sem af er ári hefur verið lokið við byggingu 492 íbúða sem er um 24% fleiri íbúðir heldur en á sama tíma fyrir ári síðan þegar fullbúnar íbúðir voru 398 talsins.
Matsstig íbúða
HMS fylgist reglulega með framvindu íbúðauppbyggingar og uppfærir matsstig íbúða í samræmi við raunstöðu þeirra í framkvæmdarferlinu. Markmiðið er að auka yfirsýn og sýn á framtíðarhorfur á fasteignamarkaði. Matsstig íbúða sýna framvindu byggingarferlisins, allt frá útgáfu byggingarleyfis til fullgerðrar íbúðar.
Samkvæmt nýjustu gögnum eru flestar íbúðir í byggingu á matsstigi 2 (um 42 prósent), sem þýðir að framkvæmdir eru hafnar og undirstöður burðarvirkis fullgerðar. Þá eru um 36 prósent af íbúðum í byggingu orðnar fokheldar eða lengra komnar, en um 64 prósent íbúða eru enn á fyrri stigum byggingarferlisins. Að jafnaði tekur um 24 mánuði að ljúka byggingu íbúða, sem bendir til þess að meirihluti þeirra íbúða sem nú eru skráðar í byggingu komi ekki á markað fyrr en seinni hluta árs 2026. HMS mun hefja árlega marstalningu á íbúðum í byggingu í lok febrúar og kynna niðurstöður talninga seinni hluta marsmánaðar. Í talningunum fer HMS um öll byggingarsvæði landsins og metur stöðu þeirra í framkvæmdarferlinu.
Stærðir íbúða
Nýjustu gögn íbúða í bygginu sýna að áherslur varðandi stærðir íbúða eru að breytast. Í fjölbýlishúsum er stærsti hluti nýrra íbúða á bilinu 80-150 fermetrar, en samanlagt eru 62 prósent allra íbúða í þessum stærðarflokki sem er jafnframt í samræmi við dreifingu fullbúinna fjölbýlisíbúða. Hins vegar má sjá að minna er byggt af íbúðum í fjölbýli sem eru undir 60 fermetrum samanborið við hlutfall fullbúinna íbúða í þeirri stærð.
Svipuð þróun sést í sérbýlum, þar sem nýbyggingar eru að færast í átt að smærri sérbýlum. Sérstaklega eykst hlutfall nýbygginga á bilinu 70-110 fermetrar, en þar eru nú 25 prósent allra sérbýla í byggingu, samanborið við 15 prósent af fullbúnum sérbýlum. Á móti eru stærri sérbýli, sérstaklega á bilinu 110-150 fermetrar, í lægra hlutfalli í nýbyggingum en eldri húsnæði. Þetta gæti verið merki um að byggingaraðilar séu að bregðast við breyttum markaðsaðstæðum og vaxandi eftirspurn eftir minni, hagkvæmari húsnæði og breytingu á fjölskyldustærðum.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS