18. febrúar 2025
26. apríl 2024
Einn af hverjum sex nýjum leigusamningum hefur ekki skráðan reykskynjara
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Skráningu um eldvarnir leiguíbúða er ábótavant samkvæmt upplýsingum sem HMS hefur unnið úr Leiguskrá. Tæp 17 prósent allra leigusamninga í Leiguskrá sem tóku gildi á fyrstu þremur mánuðum ársins eru ekki með reykskynjara skráðan í íbúðinni.
Upplýsingar um brunavarnir hafa batnað
Stafræn leiguskrá HMS hefur að geyma upplýsingar um brunavarnir, þar sem leigusalar geta skráð fjölda reykskynjara í leiguíbúðum sínum. Þessar upplýsingar hafa orðið betri eftir því sem leigusamningum hefur fjölgað í leiguskrá, en leigusalar hafa í auknum mæli skráð þann fjölda reykskynjara sem eru til staðar í íbúðinni í nýjum leigusamningum.
Lögum samkvæmt eiga allar leiguíbúðir að fullnægja kröfum um brunavarnir, en til þess þurfa þær að innihalda að minnsta kosti einn reykskynjara fyrir hverja 80 fermetra á hverri hæð, auk slökkvitækis. Brunavarnir eru á ábyrgð leigusala, sem eiga að sjá til þess að reykskynjarar og slökkvitæki séu í lagi í upphafi leigutímabils.
Myndin hér að neðan sýnir skráningu á reykskynjurum eftir upphafsdag leigusamninga í leiguskrá. Samkvæmt henni hafa nú yfir 80 prósent nýrra leigusamninga reykskynjara skráðan í íbúðinni.
Skráning reykskynjara eftir upphaf leigusamnings í Leiguskrá
Líkt og myndin sýnir hefur hlutfall skráðra reykskynjara í nýjum leigusamningum ekki hækkað á síðustu mánuðum. Frá áramótum eru um 17 prósent þeirra án skráðs reykskynjara. Þetta er töluvert hærra hlutfall en kemur fram í árlegri skoðanakönnun sem HMS framkvæmir um brunavarnir á heimilum landsins, en samkvæmt henni eru engir reykskynjarar til staðar í 4,9 prósent íbúða á leigumarkaði.
Hátt hlutfall leiguíbúða án skráðs reykskynjara gefa því vísbendingu um handvömm í skráningu á brunavörnum heimila. Sömuleiðis er skráningu á slökkvitækjum og eldvarnarteppum í leiguhúsnæði ábótavant, þar sem fáir nýir leigusamningar tilgreina fjölda slíkra tækja í leiguíbúðinni. Í því tilefni minnir HMS leigusala á mikilvægi þess að brunavarnir séu í lagi og að gerð sé grein fyrir þeim í húsaleigusamningum.
Kynningarefni fyrir Dag reykskynjarans 2023
HMS sinnir öflugu fræðslu og forvarnarstarfi á sviði brunavarna, inn á vefnum Vertu eldklár má nálgast forvarnar- og fræðsluefni varðandi brunavarnir heimilisins.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS