13. janúar 2025
30. ágúst 2024
Byggingariðnaðurinn óx umfram aðrar atvinnugreinar á fyrri hluta ársins
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Hægt hefur á hreyfingu fyrirtækja inn og út úr byggingarmarkaðnum, þar sem færri gjaldþrot og færri nýskráningar mældust þar á fyrri helmingi ársins miðað við sama tímabil í fyrra
- Í júlí störfuðu um 4 prósent fleiri í byggingariðnaði heldur en á sama tíma í fyrra, á sama tíma og starfsfólki á vinnumarkaði hefur fjölgað um 1,6 prósent
- Innflutningur byggingarhráefna hefur aukist á síðustu mánuðum, samhliða hagstæðu heimsmarkaðsverði á timbri og stáli og fjölda byggingarverkefna á seinni byggingarstigum
Fleiri fyrirtæki störfuðu í byggingariðnaði á fyrri helmingi ársins en á sama tímabili í fyrra, samkvæmt tölum sem HMS hefur fengið frá Hagstofu um nýskráningar og gjaldþrot í greininni. Fyrirtækjum og starfsfólki fjölgar hraðar í byggingariðnaði heldur en í öðrum atvinnugreinum, þrátt fyrir að hægt hafi á vextinum í atvinnugreininni á síðasta ári.
Færri gjaldþrot og nýskráningar í byggingarstarfsemi
Á fyrri helmingi þessa árs urðu 145 fyrirtæki í byggingarstarfsemi gjaldþrota, samanborið við 187 fyrirtæki í fyrra. Gjaldþrotin eru því færri en voru í fyrra en árið 2023 voru gjaldþrotin sögulega mörg í greininni.
Eins fækkaði nýskráningum á milli ára, en 281 fyrirtæki í greininni var nýskráð á fyrstu sex mánuðum ársins miðað við 333 á sama tímabili í fyrra. Nýskráningar umfram gjaldþrot voru því 136 á fyrri helmingi þessa árs, miðað við 146 á sama tíma í fyrra.
Störfum fjölgar hraðar í byggingariðnaði en í öðrum atvinnugreinum
Alls störfuðu 3,7 prósent fleiri í byggingariðnaði í júní síðastliðnum heldur en í sama mánuði í fyrra, en á sama tíma fjölgaði starfsfólki í hagkerfinu í heild 1,6 prósent yfir sama tímabili. Fjölgun starfandi í byggingarstarfsemi og mannvirkjaferð umfram það sem gerist í hagkerfinu í heild endurspegla skammtímavísbendingar um að umsvif í byggingariðnaði hafi vaxið meira en í öðrum greinum í hagkerfinu síðustu tólf mánuði. Vísbendingar eru um að jarðhræringar og eldsumbrot á Reykjanesi í lok síðasta árs hafi aukið hvata verktaka til að klára framkvæmdir sem þegar hefur verið byrjað á.
Líkt og HMS hefur fjallað um í síðustu mánaðarskýrslu hefur innflutningur byggingarhráefna vaxið í rúmt ár eftir að hafa dregist hratt saman frá miðju ári 2022. Meginorsök vaxtar á innflutningi byggingarhráefna má einkum rekja til timburs, veggjaklæðninga og stáls. Aukning á milli ára í flokkum sem nýtast á seinni byggingarstigum bendir til að verktakar leggi áherslu á að klára þau verkefni sem byrjað hefur verið á. Hagstæð heimsmarkaðsverð á timbri og stáli spila líka inn í og hafa eflaust átt þátt í meiri innkaupum en áður.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS