29. nóvember 2023

Brunar í atvinnuhúsnæði þar sem fólk hefur búsetu

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Fjór­ir al­var­leg­ir brun­ar

Á þessu ári hafa orðið fjórir alvarlegir brunar í húsnæði þar sem notkun er ekki í samræmi við skráningu húsnæðis og aðalskipulag sveitarfélags. Um er að ræða bruna í atvinnuhúsnæði þar sem fólk hefur búsetu og hafa þeir það sameiginlegt að hafa valdið töluverðu tjóni, bæði mann- og eignatjóni.  

Í febrúar síðastliðinn kom upp bruni í Vatnagörðum í Reykjavík og í ágúst við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði. Á báðum þessum stöðum hafði fólk verið með fasta búsetu. Í október lést einstaklingur í bruna á Funahöfða í Reykjavík en viðkomandi bjó í húsnæðinu ásamt fleira fólki. Þá varð fjórði bruninn í atvinnuhúsnæði við Stangarhyl í Reykjavík um síðastliðna helgi, þar sem einstaklingur sem þar hafði búsetu lést í kjölfar brunans.

Brunavarnasvið HMS hefur rannsóknarskyldu að gegna skv. lögum um brunavarnir þegar kemur að brunum sem fela í sér manntjón eða mikið eignatjón. Megintilgangur rannsóknarinnar er að draga saman helstu atriði er varða eldsvoðann, bygginguna, slökkvistarf og eldvarnareftirlit í því skyni að draga lærdóm af því sem gerðist og til að lágmarka hættuna fyrir að sambærileg atvik endurtaki sig. Rannsóknir sem þessar styrkja einnig HMS í samræmingar og leiðbeinandi hlutverki sem stofnunin gegnir á sviði brunavarna. 

Rann­sókn­ir í full­um gangi

HMS hefur brunana sem hér um ræðir til skoðunar og er unnið að rannsókn þessara mála innan brunavarnasviðs stofnunarinnar. Fyrir liggur að nauðsynlegt er að efla brunavarnir í húsnæði sem nýtt er til búsetu óháð notunarflokki og því mikilvægt að skoða þau atvik sem koma upp sérstaklega í slíku húsnæði. Niðurstöður þessara rannsókna liggja ekki fyrir að svo stöddu en þær munu nýtast til áframhaldandi vinnu í við að efla brunavarnir með öryggi íbúa að leiðarljósi.  

Mikil vinna hefur átt sér stað á sviði brunavarna frá því að bruninn við Bræðraborgarstíg átti sér stað árið 2020 þar sem þrír einstaklingar létu lífið. Á næstu dögum stendur til að innviðaráðherra muni leggja fram frumvarp sem mælir fyrir um breytingar á ýmsum lögum til að efla brunavarnir og öryggi fólks sem hefur fasta búsetu í atvinnuhúsnæði. Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að skrá tímabundið aðsetur í atvinnuhúsnæði í þeim tilgangi að tryggja öryggi fólks og rétta skráningu þeirra í húsnæði. Frekari ábyrgð er lögð á eigendur þessara húsa að hlutast til um að skráning einstaklinga sem hafa fasta búsetu í húsnæði þeirra sé rétt. Frumvarpið inniheldur mikilvæg ákvæði á sviði brunavarna er varða heimildir slökkviliðs til eldvarnareftirlits, svo sem skoðunar og beitingu stjórnvaldssekta þar sem þess reynist þörf.   

HMS telur brýnt að frumvarpið verði að lögum sem fyrst svo unnt sé að tryggja öryggi íbúa landsins með tilliti til brunavarna en umrætt frumvarp er mikilvægur liður á þeirri vegferð. 

Tengill inn á Samráðsgátt

Tengill inn á Samráðsgátt

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS