5. júlí 2023

Breytingar á hlutdeildarlánum fyrir fyrstu kaupendur

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Hámarksverð íbúða hafa verið endurskoðuð og hækkuð um 21-25%.
  • Tekjuviðmið umsækjenda hafa verið hækkuð.
  • Úthlutanir verða nú 12 sinnum á ári í stað 6 sinnum áður.

Nýlega voru gerðar breytingar á reglugerð um hlutdeildarlán. Helstu breytingarnar voru þær að hámarksverð íbúða var uppfært og var hækkun í öllum stærðarflokkum í öllum svæðaflokkum. Tekju- og eignamörk voru einnig hækkuð. Úthlutunartímabilum hlutdeildarlána var fjölgað og er þeim nú úthlutað mánaðarlega í stað 6 sinnum á ári sem var fyrir breytingarnar.

Hlutdeildarlán er úrræði fyrir fyrstu kaupendur sem eru undir ákveðnum tekjumörkum. Lánin eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum sem hafa verið samþykktar af HMS á að falla inni í úrræðið. Fyrstu kaupendur eru þeir sem ekki hafa átt fasteign áður og þeir sem ekki hafa átt fasteign sl. fimm ár. Hlutdeildarlánum er ætlað að hjálpa tekjuminni einstaklingum og fjölskyldum í að komast inn á fasteignamarkaðinn. Þeim sem geta greitt af íbúðaláni en eiga ekki fyrir útborgun án aðstoðar.

Dæmi um fjármögnun með hlutdeildarláni:
  • Kaupandi leggur fram a.m.k. 5% kaupverðs í útborgun.
  • Kaupandi tekur húsnæðislán fyrir 75% kaupverðs.
  • HMS veitir kaupanda hlutdeildarlán fyrir allt að 20% kaupverðs.

Engir vextir eða afborganir eru af hlutdeildarláni en lántaki endurgreiðir lánið þegar hann selur eignina eða við lok lánstíma. Hlutdeildarlánið er veitt til 10 ára en heimilt er að framlengja lánstímann um fimm ár í senn, mest til 25 ára alls. Hlutdeildarlánið fylgir verðbreytingu eignarinnar og hækkar því og lækkar í samræmi við hana.

Hlutdeildarlánin voru fyrst veitt undir lok árs 2020 en síðan þá hefur HMS veitt 490 Hlutdeildarlán. Flest lánin hafa farið til kaupa á íbúðum í Reykjavík (142 lán) og næst flest í Reykjanesbæ (121 lán). Flest lán voru veitt árið 2021 (297 lán) en dregið hefur verulega úr fjölda lána síðustu 2 ár. Ástæðuna má rekja til þess að við endurskoðun á hámarksverðum íbúða sem uppfylla skilyrði hlutdeildarlána var ekki fylgt þeim miklu verðhækkunum sem voru á fasteignaverði á þeim tíma. Því voru mun færri íbúðir sem uppfylltu skilyrðin en áður og var hægt að lána hlutdeildarlán til.

Lánsfjárhæð þessara 490 lána eru rétt rúmlega 4 milljarðar þar sem mest hefur verið lánað á vaxtarsvæðum utan höfuðborgarsvæðisins eða um 2 milljarðar. Á höfuðborgarsvæðinu hefur verið lánaður rúmlega 1,7 milljarður og um 268 milljónir á landsbyggð utan vaxtarsvæða.

Úthlutunartímabil verða nú 12 í stað 6 áður og mun HMS því framvegis úthluta hlutdeildarlánum mánaðarlega. Með breytingunni er ætlunin að ná meiri fyrirsjáanleiki bæði fyrir byggingaraðila og kaupendur. Þannig að afgreiðslutími umsókna styttist til muna og umsækjendur fá niðurstöðu fyrr en áður til þess að ljúka kaupunum.

Hlutdeildarlán eru fyrir tekjuminni einstaklinga og fjölskyldur og þurfa umsækjendur að vera undir ákveðnum tekjumörkum. Tekjumörkin miðast við tekjur síðustu 12 mánuði. Með síðustu breytingu á reglugerð voru tekjuviðmiðin endurskoðuð og eru nú:

  • Hámarkstekjur einstaklings eru kr. 8.748.000,- fyrir sl. 12 mánuði.
  • Hámarkstekjur hjóna/sambýlisfólks eru kr. 12.219.000,- fyrir sl. 12 mánuði.
  • Viðbót vegna hvers barns/ungmennis sem er undir 20 ára aldri er kr. 1.632.000,-.

Einstætt foreldri með eitt barn má því að hámarki hafa haft kr. 10.553.000,- í tekjur síðastliðna 12 mánuði. Par með 2 börn má að hámarki hafa haft kr. 15.829.000,- í tekjur.

Dæmi um hámarkstekjur með tilliti til fjölskyldustærðar eftir breytingarnar:

Stærsta breytingin að þessu sinni var á leyfilegum hámarksverðum íbúða sem heimilt er að fjármagna með hlutdeildarlánum. Hámarksverðin voru hækkuð um 21-25%. Verð íbúðar miðast bæði við stærð hennar og fjölda svefnherbergja. Þannig að bæði skilyrðin séu uppfyllt innan viðkomandi verðflokks. Breyting var einnig gerð á röðun sveitarfélaga í verðflokka og voru sveitarfélögin Hörgársveit, Suðurnesjabær og Sveitarfélagið Ölfus færð úr “á landsbyggðinni utan vaxtarsvæða” yfir í “á vaxtarsvæðum utan höfuðborgarsvæðisins”.

Sem dæmi um hámarksverð þriggja herbergja íbúðar sem er 78 fermetra að stærð og staðsett í Mosfellsbæ sem er í flokknum „á höfuðborgarsvæðinu“. Íbúðin er með tveimur svefnherbergjum, er að lágmarki 70 fermetrar og má þar af leiðandi kosta að hámarki 62,5 milljónir.

Annað dæmi er tveggja herbergja 78 fermetra íbúð í Hafnarfirði sem er einnig í flokknum „á höfuðborgarsvæðinu“. Hámarksverð íbúðarinnar sem er jafn stór og í fyrra dæminu er 58 milljónir þar sem hún er einungis með eitt svefnherbergi.

Ný hámarksverð eru eftirfarandi:

Á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Garðabæ, Hafnarfjarðarkaupstað, Kópavogsbæ, Mosfellsbæ, Reykjavíkurborg og Seltjarnarnesbæ:

Á vaxtarsvæðum utan höfuðborgarsvæðisins, þ.e. í Akraneskaupstað, Akureyrarbæ, Grinda­víkurbæ, Hveragerðisbæ, Hörgársveit, Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, Sveitarfélaginu Árborg, Sveitarfélaginu Vogum og Sveitarfélaginu Ölfusi­: 

Á landsbyggðinni utan vaxtarsvæða:

Fram til þessa hafa 1.814 íbúðir verið samþykktar af HMS um að uppfylla skilyrði til þess að vera fjármagnaðar með hlutdeildarláni. Þar af hafa 220 íbúðir verið samþykktar á síðast liðnum tveimur vikum frá því að hámarksverðin hækkuðu með breytingu reglugerðar. Til samanburðar þá voru 204 íbúðir samþykktar af HMS á öllu árinu 2022.

Hér má sjá skiptingu á samþykktum íbúðum eftir landshlutum fram til dagsins í dag:

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS