24. mars 2025
21. mars 2025
85 umsóknir um hlutdeildarlán í mars 2025
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Andvirði umsókna um hlutdeildarlán nam um 1.167 milljónum króna, en 350 milljónir króna eru til úthlutunar.
- 72 umsóknir að andvirði 973 milljónum króna voru með samþykktu kauptilboði.
- Mikill meirihluti umsókna er vegna íbúða á höfuðborgarsvæðinu og flestar til kaupa á íbúðum í Hafnarfirði.
Alls bárust HMS 85 umsóknir um hlutdeildarlán í mars að andvirði um 1.167 milljóna króna, en 350 milljónir króna eru til úthlutunar fyrir tímabilið. HMS vinnur að yfirferð umsókna og stefnt er á að klára afgreiðslu umsókna fyrir lok mars. Í ljósi umfangs umsókna er útlit fyrir að draga þurfi úr samþykktum umsóknum í samræmi við forgangsreglur þar sem líkur eru á að samþykktar umsóknir verði umfram fjárhæð sem er til úthlutunar að þessu sinni.
Meirihluti umsókna til kaupa á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu
Flestar umsóknir voru vegna kaupa á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu þar sem fjárhæð hlutdeildarlána var um 946 milljónir króna til 66 íbúða. Þær íbúðir sem sótt var um eru staðsettar í Hafnarfirði, Mosfellsbæ og í Reykjavík. Á vaxtarsvæðum er helst sótt um vegna íbúða á Suðurnesjum, flestar í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. Á landsbyggðinni er meðal annars sótt um vegna íbúða á Hellu og Grenivík.
Umsóknir með samþykkt kauptilboð í forgangi
Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og standa þau til boða fyrir fyrstu kaupendur og þau sem ekki hafa átt íbúð síðastliðin fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum. Í forgangi eru umsóknir þar sem staðfest kauptilboð liggur fyrir, auk þess sem miða skal við að á hverju ári verði að minnsta kosti 20% veittra hlutdeildarlána veitt til kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins.
Af þeim umsóknum sem bárust um hlutdeildarlán í mars voru 72 þeirra með samþykkt kauptilboð og 13 umsóknir án kauptilboðs. Heildarfjárhæð umsókna með samþykkt kauptilboð var um 973 milljónir króna.
Næsta umsóknartímabil hefst 3. apríl
Opnað verður aftur fyrir nýtt umsóknartímabil hlutdeildarlána þriðjudaginn 3. apríl næstkomandi og mun umsóknartímabilið standa til klukkan 12:00 þann 11. apríl næstkomandi. Til úthlutunar fyrir tímabilið verða 350 milljónir króna.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS