15. janúar 2024

232 ný heimili árið 2023 með aðstoð hlutdeildarlána

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Árið 2023 sóttu 516 fyrstu kaupendur um hlutdeildarlán sem er mesti fjöldi umsókna á einu ári frá því reglur um hlutdeildarlán tóku gildi.
  • Flest lán verið veitt á vaxtarsvæðum utan höfuðborgarsvæðisins en flest lán hafa verið veitt í Reykjavík þegar litið er til einstaka sveitarfélaga.
  • Frá upphafi hafa 2.604 íbúðir verið samþykktar að uppfylla skilyrði til þess að vera fjármagnaðar með hlutdeildarláni.

Í desember 2023 bárust HMS 32 umsóknir um hlutdeildarlán og var heildarfjöldi umsókna á árinu 2023 alls 516 talsins sem er mesti fjöldi umsókna sem borist hefur á einu ári. Flestar umsóknirnar á árinu voru vegna kaupa á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu eða 332 umsóknir, 162 umsóknir voru á vaxtarsvæðum utan höfuðborgarsvæðisins og 22 umsóknir á landsbyggð utan vaxtarsvæða.

Á árinu 2023 veitti HMS út 232 hlutdeildarlán samtals að fjárhæð um 2.626 milljónir króna þar af voru 54 lán veitt í desember. Af veittum lánum ársins voru um 49% lána á höfuðborgarsvæðinu eða 113 lán, á vaxtarsvæðum utan höfuðborgarsvæðisins voru veitt 110 lán eða 47%  og 9 lán (4%) voru veitt á landsbyggð utan vaxtarsvæða.

Frá því að hlutdeildarlán hófu göngu sína á síðari hluta árs 2020 þá hefur HMS veitt samtals 685 lán að fjárhæð samtals 6.338 milljónir króna. Um 2.974 milljónir hafa verið vegna kaupa á íbúðum á vaxtarsvæðum, um 3.193 milljónir á höfuðborgarsvæðinu og um 171 milljón á landsbyggð utan vaxtarsvæða.

Hlutdeildarlán hafa verið veitt til kaupa á íbúðum í 24 sveitarfélögum víða um landið. Flest lán hafa verið veitt á vaxtarsvæðum utan höfuðborgarsvæðisins (356 lán) helst í Reykjanesbæ (136 lán),  Akureyrarbæ (54 lán) og Akraneskaupstað (52 lán). Á höfuðborgarsvæðinu hafa verið veitt 308 lán helst í Reykjavík (182 lán), sem jafnframt er það sveitarfélag þar sem flest lán hafa verið veitt, Hafnarfirði (57 lán) og Garðabæ (35 lán). Á landsbyggðinni utan vaxtarsvæða hafa verið veitt 21 lán helst í Dalvíkurbyggð (5 lán) og Múlaþingi (4 lán).

Um hlutdeildarlán

Hlutdeildarlán er aðstoð fyrir fyrstu kaupendur sem eru undir ákveðnum tekjumörkum í að komast inn á fasteignamarkaðinn. Kaupendur sem eiga erfitt með að safna fyrir, fullri útborgun en geta greitt mánaðarlegar afborganir af íbúðaláni. Lánin eru vaxta og afborgunarlaus en eru greidd til baka við sölu íbúðar eða að loknum lánstíma. Fyrstu kaupendur eru þeir sem ekki hafa átt fasteign áður og þeir sem ekki hafa átt fasteign síðastliðin fimm ár.

Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum sem hafa verið samþykktar af HMS á að uppfylla skilyrði m.t.t. stærðar og hámarksverða. Fram til þessa hafa 2.604 íbúðir verið samþykktar af HMS um að uppfylla skilyrði til þess að vera fjármagnaðar með hlutdeildarláni. Þar af voru 1.048 íbúðir samþykktar á árinu 2023. Samþykktar voru íbúðir í öllum landshlutum nema á Norðurlandi vestra. Flestar íbúðir voru samþykktar á höfuðborgarsvæðinu (577 íbúðir) helst í Hafnarfirði (309 íbúðir) og Reykjavík (107 íbúðir). Á Suðurnesjum voru 203 íbúðir samþykktar, 129 íbúðir í Sveitarfélaginu Vogum og 54 íbúðir í Reykjanesbæ.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS