Um Ask-mann­virkja­rann­sókna­sjóð

Um Ask-mann­virkja­rann­sókna­sjóð

Askur er samkeppnissjóður sem stofnaður var árið 2021 og veitir styrki til mannvirkjarannsókna. Askur leggur áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar, í samræmi við markmið mannvirkjalaga.

Markmið sjóðsins er að styðja við rannsóknir sem skila gagnlegum og áreiðanlegum niðurstöðum og styrkja húsnæðis og mannavirkjagerð í heild. Við úthlutanir er horft sérstaklega til þarfa og áskorana í íslenskri mannvirkjagerð, með áherslu á lausnir byggðar á gögnum, nýjustu þekkingu og skýrum markmiðum um sjálfbærni.

ASKUR hvetur fagfólk úr háskólasamfélaginu, rannsókna- og nýsköpunargeiranum, opinberum aðilum og atvinnulífi að vinna saman að metnaðarfullum verkefnum.  Verkefni eru metin út frá Rannsóknarþörf húsnæðis og mannvirkja og áhersluflokkum ár hvert.

Rannsóknarþörfin varpar ljósi á mikilvægi, umfangi, eðli og samfélagslegan ávinning mannvirkjarannsókna í breiðum skilningi. Markvissari rannsóknavinna á sviði mannvirkjagerðar hjálpar rannsakendum að velja brýn viðfangsefni til rannsókna og mun hún vera í leiðarljósi við val á  verkefnum til úthlutunar úr Aski. Rannsóknarþörfin í dag er ekki tæmandi yfirlit eða forgangsröðun rannsóknaþarfar í íslenskri húsnæðis- og mannvirkjagerð, hún gefur  mynd af stöðunni eins og hún er í dag.

Reglur sjóðsins

Í reglugerð sjóðsins og starfsreglum hans er fjallað nánar um styrkveitingar, fyrirkomulag úthlutana og fleira. Væntanlegir umsækjendur eru hvattir sérstaklega til að kynna sér þau ákvæði.

 

Fjármögnun og umsýsla 

Sjóðurinn er fjármagnaður sameiginlega af félags- og húsnæðismálaráðuneytinu, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu og Húsnæðis-og mannvirkjastofnun.

Sjóðurinn heyrir undir félags- og húsnæðismálaráðuneytið en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annast stjórn og daglega umsýslu sjóðsins, þ.m.t. stjórnsýslu og úthlutun.

Nánari upplýsingar

HMS annast rekstur og dag­lega umsýslu sjóðsins, stjórnsýslu, framkvæmd úthlutunar og samskipti við fagráð sjóðsins. Hægt er að óska eftir frekari upplýsingum með því að senda tölvupóst á netfangið askur@hms.is