Rannsóknaþörf í húsnæðis- og mannvirkjagerð
Rannsóknaþörf í húsnæðis- og mannvirkjagerð
Í nútíma samfélagi er tækniþróun, nýsköpun og þróun sjálfbærra lausna í miklum vexti. Rannsóknir sem byggja á nýjustu þekkingu hverju sinni eru nauðsynlegar fyrir mannvirkjaiðnaðinn til að styðja við og nýta þá þróun sem nútíminn býður uppá. Rannsóknastarf í húsnæðis- og mannvirkjagerð er því afar mikilvægt. Hins vegar skortir heildstæðari umgjörð um þann málaflokk; til dæmis hefur enginn einn aðili yfirlit yfir umræddar rannsóknir og þann rannsóknarbúnað sem er til staðar á Íslandi. Auk þess er mikil þörf á að virkja og styðja rannsóknarsamfélagið betur með auknu fjármagni til húsnæðis- og mannvirkjarannsókna til að stuðla að betri og heilsusamlegri byggingum til framtíðar.
Sagan
Í mars 2024 gaf HMS út Vegvísi að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar. Í honum eru skilgreindar 16 aðgerðir í þremur flokkum sem áttu að varða leiðina út árið 2025 og móta stefnuna fram á við. Fyrsta aðgerð Vegvísisins og einn af grunnþáttum hans var að greina rannsóknarþörf húsnæðis og mannvirkja á íslandi ásamt því að móta stefnu í málaflokknum. Stofnað var þverfaglegt vísindaráð vorið 2024 með alls ellefu fulltrúum frá vísindasamfélagi, atvinnulífi og stjórnvöldum. Fyrsta hlutverk þess var að greina rannsóknaþörfina á sviði mannvirkja- og húsnæðismála með hliðsjón af húsnæðisstefnu, landskipulagsstefnu og loftslagsmarkmiðum Íslands.
Vísindaráð
- Anna María Bogadóttir, arkitekt, f.h. LHÍ
- Ásta Logadóttir, PhD, verkfræðingur, f.h. FRV og VFÍ
- Gústaf Hermannsson, byggingaeðlisfræðingur hjá HMS, f.h. HMS
- Halldór Eiríksson, arkitekt, f.h. Samark og AÍ
- Kristín Þrastardóttir, umhverfisverkfræðingur hjá Eykt, f.h. verktaka
- Ólafur Sveinn Haraldsson, PhD, byggingarverkfræðingur, f.h. HÍ
- Ólafur Wallevik, PhD, byggingarverkfræðingur, f.h. HR
- Sigríður Ósk Bjarnadóttir, PhD, byggingarverkfræðingur hjá Hornsteini, f.h. byggingarvöruframleiðenda
- Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur, f.h. Betri bygginga
- Þórunn Sigurðardóttir, byggingarverkfræðingur hjá HMS, f.h. HMS
- Ævar Harðarson, PhD, arkitekt, f.h. Reykjavíkurborgar
Tilgangurinn með greiningu á rannsóknaþörfinni var meðal annars að varpa ljósi á mikilvægi, umfangi, eðli og samfélagslegan ávinning mannvirkjarannsókna í breiðum skilningi. Jafnframt stuðlar greining að markvissari rannsóknavinnu á sviði mannvirkjagerðar; þannig getur hún bæði hjálpað rannsakendum að velja brýn viðfangsefni til rannsókna og hinum ýmsu sjóðum að styrkja þau.
Vísindaráð hóf greiningu á rannsóknarþörfinni í apríl 2024 og í júlí 2025 setti það fram sextán viðfangsefni mannvirkjarannsókna sem talið er brýnast að vinna að miðað við íslenskar aðstæður. Viðfangsefnin voru síðan flokkuð niður í sex flokka út frá áherslum. Flokkarnir sex eru merktir frá A til E hér fyrir neðan.
Ljóst er að ekki er hægt að gera tæmandi yfirlit rannsóknaþarfar í íslenskri húsnæðis- og mannvirkjagerð vegna síbreytilegra áskorana, stöðugrar þróunar og nýsköpunar. Það má þó vel draga mynd af henni í grófum dráttum og greina helstu forgangsverkefni hverju sinni með þeim hætti að það þjóni tilgangi sínum. Þannig var leitast við að fá sem bestu yfirsýn yfir núverandi stöðu með eftirfarandi úrræðum og forsendum:
A. Þegar byggð mannvirki; reynsla og sögulegar staðreyndir
1. Kortlagning, gagnasöfnun og greining á núverandi húsnæði og íslenskum byggingarhefðum og –lausnum
2. Byggingargallar
B. Viðhald og endurbætur
3. Viðhaldsframkvæmdir og endurbætur
C. Byggingarvörur, byggingarhlutar og byggingaraðferðir m.t.t. íslenskra umhverfisaðstæðna
4. Veðurfar og áhrif á virkni byggingarvara
5. Veðurfar og áhrif á virkni byggingarhluta
6. Aðlögun að loftslagsbreytingum- og íslensk mannvirkjagerð
7. Jarðefni, jarðtækni og jarðhræringar
8. Íslenska vatnið og lagnakerfi
D. Sjálfbærni
9. Kolefnislosun og losunarviðmið fyrir íslensk mannvirki
10. Hringrásarhagkerfið
11. Þróun vistvænna byggingarvara
12. Orkunýtni
E. Heilsutengd áhrif mannvirkja á notendur þeirra
13. Innivist
14. Loftgæði
15. Ljósvist
F. Þverfaglegar húsnæðisrannsóknir
16. Húsnæði og samfélag
Tillaga vísindaráðs var sett fram í opið samráð í september 2025 og í nóvember sama ár var hún gefin út í ritinu Rannsóknaþörf í húsnæðis-og mannvirkjagerð.
Næstu skref
Greining á rannsóknaþörf í íslenskri húsnæðis- og mannvirkjagerð liggur nú fyrir. Eðli málsins samkvæmt er slík samantekt lifandi skjal og þarf reglulega rýni, meðal annars vegna nýjunga í verklagi og tækni- og vöruþróun. Vinna vísindaráðsins við greiningu á rannsóknaþörfinni mun því þurfa að halda áfram með skipulögðum og reglulegum hætti. Samhliða mun verklag og aðferðafræði við þá greiningu og kerfisbundnari kortlagningu rannsóknasviða mótast betur og þróast út frá þeirri reynslu sem byggist upp. Meðal þess sem hægt væri að líta til í því sambandi er:
- Mynda sérstaka faghópa fyrir ákveðin fræðasvið.
- Kortleggja betur rannsóknir í mismunandi fræðasviðum mannvirkjagerðar.
- Gera lista yfir brýn viðfangsefni sem myndu henta vel fyrir doktors- og meistaranema í mannvirkjagerð.
- Greina hvers konar gögn og upplýsingar þarf að afla til að bæta rannsóknaumhverfið og hvaða aðilar geti tryggt öflun viðkomandi gagna og hýst þau.
- Skoða nánar samlegðaráhrif rannsókna á sviðum mannvirkjagerðar og skipulagsmála.
HMS mun áfram verkefnastýra vinnu vísindaráðs og tryggja samfellu í starfi þess. HMS mun jafnframt birta rannsóknaþörfina hverju sinni, styðja við framkvæmd hennar og hafa yfirsýn yfir stöðu rannsókna hverju sinni. Þá mun HMS setja upp miðlæga gagnalind þar sem hægt er að nálgast niðurstöður rannsókna, leiðbeiningar og annað fræðsluefni fyrir mannvirkjageirann. Á mynd 2 má sjá í grófum dráttum hvernig vinnunni hefur verið háttað hingað til og næstu skref hennar.
