Vinnu­stof­ur HMS vegna breytts bygg­ing­ar­eft­ir­lits

Vinnu­stof­ur HMS vegna breytts bygg­ing­ar­eft­ir­lits

Í framhaldi af útgáfu vegvísis HMS að breyttu byggingareftirlit í maí 2025 hefur stofnunin átt upplýsandi samtöl við ýmsa hagaðila. Í október og nóvember hyggst HMS svo halda vinnustofur með fulltrúum hagaðila.

Á vinnustofunum verður farið yfir þær tillögur vegvísisins sem snúa að áhættumiðuðu ytra eftirliti í höndum óháðra skoðunarstofa í stað byggingarfulltrúa og jafnframt niðurlagningu á hlutverki byggingastjóra. Tillögunum er í grunninn ætlað að draga úr byggingargöllum og auka neytendavernd.

Markmið HMS er að sjónarmið og samtal á hverri vinnustofu verði ekki aðeins þverfaglegt heldur dragi einnig fram ólíkar áskoranir og tækifæri í hverjum landshluta fyrir sig.

Til að ná því markmiði mun HMS óska eftir tilnefningum frá samtökum eða fulltrúum hagaðila um einstaklinga með mismunandi hlutverk innan mannvirkjageirans til að taka þátt í vinnustofunum. Þeir flokkar hagaðila innan mannvirkjageirans sem horft verður til svo unnt verði að ná breiðu samtali á vinnustofunum eru hönnun, framkvæmd, eftirlit og stjórnvöld.

Fyrirkomulag hverrar vinnustofu verður með þeim hætti að í upphafi þeirra verða forsendur og umfang breytinganna sem tillögurnar fela í sér kynntar. Þátttakendur fá í kjölfarið tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri en gefst um leið kostur á að heyra sjónarmið annarra hagaðila innan mannvirkjageirans gagnvart fyrirhuguðum breytingum.

Vinnustofurnar verða alls fimm talsins, þ.e.a.s. á Höfuðborgarsvæðinu, Borgarnesi, Ísafirði, Norðurlandi og Austurlandi.