28. febrúar 2024

Virkni á fasteignamarkaði jókst á seinni hluta ársins 2023

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Kaupsamningum um íbúðahúsnæði fjölgaði á milli mánaða á síðari hluta síðasta árs eftir að hafa fækkað á milli mánaða í byrjun ársins. Heilt yfir var virkni fasteignamarkaðarins í fyrra álíka mikil og árið 2014, en aukin virkni á síðari hluta ársins var meðal annars tilkomin vegna magnkaupa á íbúðum.

Sam­drátt­ur til­kom­inn vegna ró­legri mán­aða í byrj­un árs­ins

Farið var yfir virkni á íbúðamarkaði árið 2023 í síðustu mánaðarskýrslu HMS, en þar kom fram að kaupsamningar á nýliðnu ári voru 9.156 talsins og að heildarfjárhæð þeirra hafi numið 644,4 milljörðum króna. Þar af voru gerðir 950 kaupsamningar í desembermánuði sem er vel yfir mánaðarmeðaltali ársins, meðal annars vegna magnkaupa á íbúðum.

Myndin hér að neðan sýnir veltu kaupsamninga á mánuði á föstu verðlagi eftir mánuðum og landshlutum frá árinu 2007. Líkt og sést á grænu línunni á myndinni jókst veltan í öllum landshlutum í fyrra eftir því sem leið á árið.

Velta kaupsamninga á mánuði á föstu verðlagi 2007-2023

Meðalkaupverð á stökum íbúðum var 70.4 milljónir króna á föstu verðlagi í fyrra og hækkaði það um 4,7 prósent milli ára. Hækkun á meðalkaupverði má einkum rekja til hækkunar á meðalkaupverði sérbýla, þ.e. einbýla, parhúsa og raðhúsa, og raunhækkunar fasteignaverðs utan höfuðborgarsvæðisins sem nam um 2-3 prósent á nýliðnu ári.

Heildarfjöldi kaupsamninga dróst nokkuð saman á milli ára, en árið 2022 voru kaupsamningar 10.659 talsins og heildarvelta í viðskiptum 671,3 milljarðar króna. Samdrátturinn á milli ára var þó að mestu leyti tilkominn vegna rólegra mánaða á fasteignamarkaðnum á fyrri hluta ársins, en á seinni hluta ársins fjölgaði kaupsamningum á milli mánaða.

Kaupsamningum um sérbýli fækkaði hlutfallslega meira en kaupsamningum um fjölbýli líkt og búast má við þegar fasteignamarkaður dregst saman þar sem erfiðara er fyrir íbúðakaupendur að fjármagna stærri eignir í hærra vaxtastigi. Kaupsamningar á síðasta ári voru álíka margir og þeir voru árið 2014.

Jafn­marg­ir samn­ing­ar um nýtt hús­næði

Á höfuðborgarsvæðinu voru jafnmargir samningar gerðir um nýtt íbúðarhúsnæði árin 2023 og 2022 en samningum um eldra húsnæðis fækkaði hins vegar um 11 prósent á milli ára í fyrra.

Fjöldi útgefinna kaupsamninga á mánuði 2007-2023.

Kippur varð í sölu á nýju húsnæði á síðasta þriðjungi ársins en 44 prósent kaupsamninga á nýju íbúðarhúsnæði á svæðinu áttu sér stað frá september til og með desember. Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins fækkaði samningum á nýju íbúðarhúsnæði um 24 prósent og annars staðar á landinu fækkaði þeim um 37 prósent frá fyrra ári.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS