17. janúar 2025
7. júní 2024
Vestmannaeyjabær byggir í samræmi við íbúðaþörf
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Spáð er að íbúum Vestmannaeyjabæjar fjölgi um 420 manns eða rúmlega 9 prósent á næstu 5 ár
- Fjöldi íbúða í byggingu í dag er í takt við fólksfjölgun í sveitarfélaginu
- Bærinn hefur tryggt framboð af byggingarhæfum lóðum fyrir 121 íbúð
Vestmannaeyjabær hefur staðfest endurskoðun á húsnæðisáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2024. Áætlunin gerir nú ráð fyrir að íbúum sveitarfélagsins fjölgi um 18,9 prósent á næstu 10 árum, og rúmlega 9 prósent á næstu 5 árum. Íbúðatalning HMS sýnir að nægilega margar íbúðir séu í byggingu í Vestmannaeyjum til að sinna íbúðaþörf í ár og á næsta ári.
Frá árinu 2021 hefur íbúum Vestmannaeyjabæjar fjölgað um tæp 4,7 prósent, en það er mun meira en fyrri áætlanir spáðu fyrir um. Sjá má sögulega mannfjöldaþróun í Vestmannaeyjabæ á mynd hér að neðan, auk mannfjöldaspár samkvæmt miðspá húsnæðisáætlana 2022-2024. Líkt og myndin sýnir er nú búist við að íbúar sveitarfélagsins verði um 5.500 árið 2033.
Á mynd hér að neðan má sjá áætlaða íbúðaþörf á hverju ári, auk uppsafnaðar íbúðaþarfar í Vestmannaeyjabæ samkvæmt húsnæðisáætlunum 2022-2024. Samkvæmt endurskoðaðri húsnæðisáætlun sveitarfélagsins er nú áætlað að þörf sé fyrir rúmum 34 íbúðum á ári, 172 íbúðum næstu 5 ár og 360 íbúðir næstu 10 ár. Á síðasta ári fjölgaði fullbúnum íbúðum í Vestmannaeyjabæ um 41 íbúð.
Í íbúðatalningu HMS voru 56 íbúðir í byggingu í september síðastliðnum og samkvæmt marstalningu fyrr á sama ári voru 39 íbúðir í byggingu. Flestar íbúðirnar sem eru í byggingu eru á fyrri framvindustigum, þ.e. ekki orðnar fokheldar, en líkt og myndin hér að neðan sýnir þá voru 41 af þeim 56 íbúðum í byggingu við síðustu íbúðatalningu á þeim framvindustigum. Áætla má að þær íbúðir verði fullbúnar seinni hluta árs 2024 eða fyrri hluta árs 2025. Fjöldi íbúða í byggingu er í takt við áætlaða íbúðaþörf samkvæmt mannfjöldaspá húsnæðisáætlunarinnar.
Markmið sveitarfélagsins er að deiliskipuleggja á nýju svæði við Löngulág. Gert er ráð fyrir allt að 90 íbúðum, einbýlum og litlum fjölbýlum á því svæði. Vestmannaeyjabær hefur nú skipulagt lóðir fyrir 393 íbúðir og eru 121 af þeim nú þegar byggingarhæf. Á næstu 5 árum stefnir sveitarfélagið á að skapa skilyrði til að úthluta byggingarhæfum lóðum fyrir allt að 393 íbúðir svo lóðaframboð mæti áætlaðri íbúðaþörf, líkt og sjá má á mynd hér að neðan.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS