27. nóvember 2024

Tryggjum öryggi okkar yfir jólin

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Rafmagn er einn stórvirkasti brennuvargur nútímans. Á hverju ári verða margir eldsvoðar sem eiga upptök sín í rafbúnaði. Stundum kviknar í vegna bilunar en oftast er um að ræða gáleysi í umgengni við rafmagn sem veldur slysum eða íkveikju.

Jólin eru hátíð ljóssins og er þá kveikt á fleiri ljósum og þau oft látin loga lengur en aðra daga ársins. Hluti af undirbúningi jólanna á að vera að ganga úr skugga um að þau ljós sem nota á séu í góðu lagi. Óvandaður, skemmdur og rangt notaður ljósabúnaður getur valdið bruna og slysum.

HMS hef­ur tek­ið sam­an nokk­ur at­riði sem er gott að hafa í huga yfir jól­in:

  • Látum aldrei loga á ljósunum á jólatrénu yfir nótt eða þegar við erum að heiman
  • Hendum gömlum jólaljósum sem eru úr sér gengin
  • Notum ætíð ljósaperur af réttri gerð, stærð og styrkleika
  • Gætum þess að brennanleg efni séu ekki nálægt jólaljósum
  • Óvarinn rafbúnaður getur valdið raflosti
  • Vörum okkur á óvönduðum jólaljósum
  • Inniljós má aldrei nota utandyra
  • Förum eftir leiðbeiningum um uppsetningu og notkun
  • Látum logandi kerti aldrei standa ofan á raftæki
  • Góður siður er að skipta um rafhlöður í reykskynjurum fyrir hver jól

Not­um rétt­ar per­ur og lát­um ljós­in ekki loga yfir nótt

Engin jólaljós eru svo örugg að hægt sé að útiloka íkveikju af þeirra völdum. Varasamt er að láta loga á jólaljósakeðjum (jólaseríum), sem og öðrum jólaljósum innanhúss, yfir nótt eða þegar við erum að heiman. Það á ekki síst við um ljós á jólatrjám.

Margar ljósakeðjur til notkunar innandyra, sérstaklega eldri gerðir, eru með útskiptanlegum perum og þannig gerðar að þegar ein pera „deyr“ logar áfram á hinum. Eftir því sem logar á færri perum eykst ljósstyrkur hverrar peru og þar með hitinn. Ljós sem ofhitna geta auðveldlega valdið bruna. Því ber að skipta strax um bilaðar perur í ljósakeðjum og hafa í huga að nota rétta gerð af peru. Röng gerð, stærð eða styrkur getur valdið ofhitnun og íkveikju. Söluaðilar eiga að vita hvaða perur henta best.

Ljós og brenn­an­leg efni eru hættu­leg blanda

Vegna hitans sem stafar frá ljósaperum er mikilvægt að alltaf sé nægileg fjarlægð frá ljósi í brennanlegt efni. Rafljós geta t.d. kveikt í gluggatjöldum engu síður en kertaljós. Sýnum sérstaka varúð gagnvart jólastjörnum og öðru pappírsskrauti sem sett er utan um ljósaperur. Ef ljósapera liggur við brennanlegt efni eins og pappír er mikil hætta á íkveikju.

Logandi kerti eru vitaskuld alltaf varasöm en komist þau í kynni við rafmagn er hætta á ferðum. Því er brýnt að láta kerti aldrei standa ofan á raftækjum eins og sjónvarpi eða hljómflutningstækjum. Kertið getur brætt sér leið niður í tækið og kveikt í því. Einnig getur kveikurinn fallið logandi af kertinu ofan í tækið eða vax lekið niður í það og valdið íkveikju.

Not­um ekki úr sér geng­in ljós

Algengt er að fólk haldi upp á gömul jólaljós sem eru úr sér gengin. Oft endar þessi hirðusemi með íkveikju eða slysi af völdum ljósanna. Réttast er að henda gömlu ljósunum eða láta fagmann yfirfara þau ef minnsti grunur leikur á að þau séu í ólagi.

Þegar farið er yfir jólaljósin er áríðandi að skipta tafarlaust um brotnar klær og brotin perustæði, sé á annað borð gert ráð fyrir að slíkt sé hægt. Einnig þarf að ganga úr skugga um að allar rafmagnsleiðslur séu heilar, að einangrun sé alls staðar í lagi og að ekki sjái í bera víra.

Ekki er til neitt eitt ráð til að ganga úr skugga um hvort jólaljós séu af vandaðri gerð. Vert er þó að reyna eins og hægt er að gera sér grein fyrir slíku. Gæði og öryggi fara saman í þessu sem öðru.

Not­um aldrei inni­ljós úti

Jólaljós utandyra eiga að vera sérstaklega gerð til slíkrar notkunar. Á öllum jólaljósum eða umbúðum þeirra, sem seld eru sem inniljós, á að standa að þau séu eingöngu til notkunar innanhúss. Að nota inniljós utandyra getur verið lífshættulegt. Útiljósakeðjur eiga að vera vatnsvarðar. Brýnt er að perur útiljósa vísi niður svo að minni hætta sé á að vatn safnist í perustæðin. Einnig er mikilvægt að festa útiljós vandlega þannig að perur geti ekki slegist við og brotnað.

Nokkur aukning hefur orðið á undanförnum árum í notkun ljósakeðja sem hægt er að kaupa í metravís og/eða eru ætlaðar til samtengingar við aðrar ljósakeðjur. Því miður er nokkuð um íkveikjur af völdum slíkra ljósa og nær undantekningarlaust er það vegna þess að ekki er vandað nægilega til samsetninga. Það er því afar brýnt að fá nákvæmar leiðbeiningar frá söluaðilum um samsetningu slíkra ljósakeðja og fara eftir þeim í einu og öllu. Þá hefur einnig orðið mikil aukning í notkun ljósakeðja með hliðtengdum perum sem ekki hitna mikið og eru þær oft hafðar með ýmisskonar skreytingum eða látnar í hrúgu í skálar. Mikilvægt er að hafa í huga að þannig má eingöngu nota ljóskeðjur sem til þessara hluta eru ætlaðar – séu þær ekki ætlaðar til þessara nota geta þær hitnað of mikið og valdið íkveikju.

 

Frekari upplýsingar er að finna í bæklingi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um jólaljós og rafmagnsöryggi sem má finna hér.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS