9. febrúar 2024

Yfir 100 milljónum króna úthlutað úr Aski til nýsköpunar og mannvirkjarannsókna

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Til­kynn­ing frá HMS

9. febrúar 2024

Yfir 100 milljónum króna úthlutað úr Aski til nýsköpunar og mannvirkjarannsókna

  • Styrkúthlutun úr Aski – mannvirkjarannsóknasjóði nemur 101,5 milljón krónum í ár og er til 34 verkefna
  • Ríflega helmingur styrkþega er með rætur í atvinnulífinu og fimmtungur í háskólunum
  • 17 verkefni hljóta styrk fyrir rannsóknir á vistvænum byggingarefnum, en önnur styrkt verkefni snúa að tækninýjungum og gæðum í mannvirkjagerð, auk rannsókna á rakaskemmdum og myglu og bættri orkunotkun mannvirkja

Askur – mannvirkjarannsóknasjóður styrkir 34 verkefni til nýsköpunar- og mannvirkjarannsókna um alls 101,5 milljón krónur í ár. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra munu afhenda styrkina í dag við hátíðlega athöfn í húsakynnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Streymt verður beint frá á úthlutuninni á vefsíðu HMS kl. 13:00 í dag.

Sjóðurinn var stofnaður árið 2021 og er hlutverk hans að veita styrki til nýsköpunar – og mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar í samræmi við markmið laga um mannvirki. Þetta þriðja styrkár Asks bárust 55 umsóknir fyrir samtals 401 milljón króna styrki.

„Byggingarrannsóknir og nýsköpun efla hugvit, gæði og heilnæmi húsakosts landsmanna ásamt því að skapa eftirsóknarverð atvinnutækifæri og leggja mikið af mörkum í baráttu við loftslagsvandann. Stærsti þáttur fjárfestingar í landinu liggur í mannvirkjagerð og því er afar mikið í húfi fyrir iðnaðinn, ríki, sveitarfélög og heimilin í landinu að rannsóknir, nýsköpun og fræðsla styrkhafa verði efld til að styðja betur við faglega mannvirkjagerð. Það er sterkt ákall frá iðnaðinum og Askssamfélaginu um aukin framlög í Ask til að ná aukinni samvirkni og framförum í iðnaðinum.“ segir Hermann Jónasson, forstjóri HMS

Nýtt afl í mannvirkjaiðnaði

Sjóðurinn sem rekinn er af HMS er nýtt afl stjórnvalda sem treystir stoðir byggingariðnaðarins í samstarfi við háskólasamfélag og atvinnulíf. Með stofnun Asksins leitast stjórnvöld við að opna opinbert styrkjaumhverfi fyrir fleiri aðila úr háskólasamfélagi og atvinnulífi og einnig að stuðla að auknu samstarfi við erlenda rannsóknaraðila.  Ríflega helmingur styrkþega eða 56% er með rætur í atvinnulífinu, 21% háskólunum og 12% styrkþega eru einstaklingar.

Sjóðurinn veitir styrki í fimm áhersluflokkum sem snúa einkum að samfélagslegum áskorunum í byggingariðnaði, svo sem rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors. Við hverja úthlutun er horft til þarfa, eðlis og áskorana á sviði mannvirkjagerðar, áherslu á nýsköpun og markmiða um sjálfbærni.

Úthlutun ársins

Langflestar umsóknir bárust í áhersluflokkinn byggingarefni eða 24 talsins og lúta öll 17 verkefnin sem hljóta styrk í þeim flokki að rannsóknum á vistvænum byggingarefnum enda eiga þau brýnt erindi í ljósi loftslagsvandans. Það stuðlar að lækkun á kolefnisspori að vinna með efni úr nærumhverfinu sem er sérlega þarft hérlendis í ljósi landfræðilegrar stöðu Íslands. Helmingur styrktra verkefna og ríflega helmingur úthlutaðra fjárhæða falla í flokkinn. Í flokknum byggingarefni eru bæði rannsóknir á vistvænni steypu, hringrásarhúsi, endurnýtingu steypu úr niðurrifi húsa, íslenska timbrinu, hampinum og drenhellum. Nýlunda í flokknum í ár felst í styrkjum til rannsókna á stórþörungum sem byggingarefni, lífefna múrsteinum og íslenskum leir.

Tíu umsóknir bárust í flokkinn tækninýjungar og hlutu sex þeirra styrk. Styrkt verkefni í þessum flokki varða stafrænar lausnir í mannvirkjagerð, rannsókn á framleiðni í greininni og tæknilegar lausnir til að koma jarðvatni í jarðveg.

Í flokkinn gæði bárust níu umsóknir og hljóta fjórar þeirra styrk. Þar er um að ræða verkefni sem skilgreinir hagkvæmt og vistvænt landsfjórðungahús, verkefni sem lýtur að greiningu á húsnæðisvalkostum og velferð, sambýlisformum kynslóða og opinberum stuðningsformum eins og almenna íbúðakerfinu.

Sjö umsóknir bárust í flokkinn gallar, raki og mygla og hljóta fjórar þeirra styrk. Þar er um að ræða samanburðarrannsókn á íslenskum útveggjum, gagnagrunn rakaskemmda og myglu, rannsókn og greining á stöðu mála varðandi frágang votrýma á Íslandi og rannsókn á kuldabrúm. Heppilegt hefði verið að fleiri rannsóknir hefðu borist í flokkinn gallar, raki og mygla í ljósi umfangs tjóna sem slíkar áskoranir hafa valdið á heimilum og stofnunum landsmanna með gríðarlegu heilsu- og verðmætatjóni

Fimm umsóknir bárust í flokkinn orkunýting og losun og hljóta þrjár þeirra styrk. Verkefni sem gengur út á að skilgreina kolefnishlutlausa byggingu, rannsókn á nýtingu sólarorku í íbúðarhúsnæði og rannsókn sem miðar að því að leggja fræðilegan grunn að minnkun kolefnisspors bygginga á höfuðborgarsvæðinu til þess að unnt verði að ná markmiðum Parísarsáttmálans hvað varðar hlýnun.

Stefnumiðuð vistvæn vegferð

Áætlað er að byggingariðnaðurinn beri ábyrgð á 30-40% af allri losun á heimsvísu og því ljóst að þar liggja tækifæri til lausna loftslagsvandans enda eiga flest verkefnin í Aski það sammerkt að hafa ávinning sem snýr að umhverfismálum. Mannvirkjaiðnaðurinn er eini iðnaðurinn sem hefur skilgreint stefnumiðaða vegferð til að ná loftslagsmarkmiðum og markmiðum norræns samstarfs með Vegvísi um vistvæna mannvirkjagerð. Í norrænu vegferðinni er stefnt að því að Norðurlöndin verði saman í fararbroddi í vistvænni vegferð mannvirkjaiðnaðarins á heimsvísu og stóð innviðaráðherra fyrir sameiginlegri yfirlýsingu húsnæðiráðherra Norðurlandanna þar að lútandi, hérlendis, í september síðastliðnum. Þó að við stöndum samstarfsþjóðum okkar að baki að mörgu leyti njótum við stuðnings þeirra og velvilja í hvívetna. Í áhersluflokknum byggingarefni eru rannsóknir og þróun á byggingarefnum og snúast umsóknir í þeim flokki nánast allar um vistvæn byggingarefni. Í áhersluflokknum orkunýting og losun er leitast eftir verkefnum sem stuðla að bættri orkunýtingu.

Litla eyjan í norðri getur verið stærri en önnur lönd að því leyti að hér getum við unnið af meiri snerpu þegar strengir eru saman stilltir þar sem boðleiðir eru styttri. Það er keppikefli okkar hjá HMS að styðja við þessa vegferð. Askur – mannvirkjarannsóknasjóður hefur reynst gríðarlega öflugt og farsælt tæki til að ná markmiðum Vegvísis um vistvæna mannvirkjagerð og markmiðum norræns samstarfs. Askur hefur með þessari stefnumiðuðu vegferð aukið framþróun og samvirkni í mannvirkjaiðnaði.

Rannsóknaumhverfið

Unnið er að útgáfu á Vegvísi um mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar sem mun skapa umgjörð um rannsóknaumhverfi mannvirkjagerðar. Áhersluflokkar Asksins setja stefnu á þörf viðfangsefni eins og verkefni sem stuðla að aukinni þekkingu á galla, raka og myglumálum, þar sem settar eru fram lausnir til að bregðast við þeim vanda. Tækninýjungar og stafrænar lausnir eru áhersluflokkur þar sem þróun er hröð og flokkurinn gæði tekur á gæðum, endingu, hagkvæmni og hönnun íbúðahúsnæðis.

Það eru engin mörk fyrir þeim árangri sem styrkhafar Asks geta náð ef við höldum áfram þeirri vegferð að vinna vel að undirbúningi og skilgreiningu á þeim verkefnum sem þörf er á að vinna í þéttu samstarfi hérlendis, á Norðurlöndunum og víðar, en höldum samhliða áfram að hafa opið fyrir nýsköpun og hugmyndir sem engum dettur í hug að skilgreina.

Frekari upplýsingar um sjóðinn má finna á vefsíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, www.hms.is/askur.

Styrkút­hlut­un árs­ins 2023 úr Aski - mann­virkja­rann­sókna­sjóði

Eftirfarandi verkefni hlutu styrki í flokknum byggingarefni

Eftirfarandi verkefni hlutu styrki í flokknum byggingargallar, raki og mygla

Eftirfarandi verkefni hlutu styrki í flokknum gæði

Eftirfarandi verkefni hlutu styrki í flokknum orkunýting og losun

Eftirfarandi verkefni hlutu styrki í flokknum tækninýjungar

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS