16. apríl 2025

Staða almenna íbúðakerfisins í apríl 2025

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Nærri 3.000 ný heimili tekju- og eignalægri fjölskyldna með viðráðanlegan húsnæðiskostnað með aðstoð stofnframlaga.
  • Höfuðborgarsvæðið ber uppi uppbyggingu innan almenna íbúðakerfisins. Þar hafa rúmlega þrjár af hverjum fjórum íbúðum verið reistar með stofnframlögum.
  • Um 41 prósent af úthlutuðum íbúðum eru ætlaðar aðilum vinnumarkaðarins fyrir tekju- og eignalægri heimili.

Frá því að reglur um stofnframlög tóku gildi á seinni hluta árs 2016 hefur fram til þessa verið úthlutað stofnframlögum til byggingar eða kaupa á samtals 4.051 íbúð í 43 sveitarfélögum um allt land. Heildarfjárhæð stofnframlaga ríkisins er um 33 milljarðar króna og heildarfjárfesting í verkefnunum um 160 milljarðar króna. Stofnframlög sveitarfélaga í þessum verkefnum nema um 19 milljörðum króna.

Til úthlutunar í ár eru 7,3 milljarðar króna og vinnur HMS úr umsóknum sem bárust í fyrstu úthlutun ársins. Alls bárust umsóknir vegna 393 íbúða og hafa umsóknir verið samþykktar af HMS og viðkomandi sveitarfélagi þar sem íbúðir verða staðsettar vegna 36 íbúða fram til þessa.

Flest­ar al­menn­ar íbúð­ir í Reykja­vík

Höfuðborgarsvæðið hefur fram til þessa borið uppi uppbyggingu almenna íbúðakerfisins og þar er Reykjavíkurborg með langflestar íbúðir eðs samtals 2.540 íbúðir sem er nærri tvær af hverjum þremur af öllum íbúðum sem hefur verið úthlutað stofnframlögum til og um 81 prósent íbúða sé litið eingöngu til höfuðborgarsvæðisins. Þar á eftir eru næstflestar íbúðirnar á Vesturlandi og þar helst á Akranesi þar sem 119 íbúðir hafa verið fjármagnaðar með stofnframlögum. Dreifingin er nokkuð jöfn á milli annarra landshluta og eru íbúðir í öllum landshlutum. Fæstar íbúðir eru á Norðurlandi vestra þar sem einungis hefur verið úthlutað stofnframlögum til uppbyggingar á 57 almennum íbúðum fram til þessa.

Nærri 3.000 ný heim­ili með við­ráð­an­leg­an hús­næð­is­kostn­að með að­stoð stofn­fram­laga

Teknar hafa verið í notkun 2.934 búðir og þær nú öruggt heimili með viðráðanlegan húsnæðiskostnað fyrir fjölskyldur í 32 sveitarfélögum um allt land. Áætla má að fjöldi einstaklinga sem býr í íbúðunum sé um 7.000 manns ef miðað er við landsmeðaltal um að 2,4 íbúar búi að meðaltali í hverri íbúð sem tekin hefur verið í notkun. Flestar tilbúnar íbúðir eru á höfuðborgarsvæðinu þar sem um þrjár af hverjum fjórum tilbúnum íbúðum eru staðsettar eða samtals 2.218 íbúðir. Þar á eftir er framboðið næstmest á Suðurnesjum og á Norðurlandi eystra þar sem í báðum landshlutum eru 133 íbúðir sem eru tilbúnar.

Um stofn­fram­lög

Stofnframlög eru stuðningur í formi eigin fjár sem veitt eru til uppbyggingar á leiguíbúðum fyrir tekju- og eignaminni heimili til að auka húsnæðisöryggi leigjenda og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna. Stofnframlögin sem eru veitt bæði til byggingar og kaupa á íbúðum eru veitt annars vegar fyrir hönd ríkisins í gegnum HMS og hins vegar frá viðkomandi sveitarfélagi þar sem íbúðirnar koma til með að vera staðsettar í.

Stofnframlag ríkisins er 18 prósent af stofnkostnaði íbúðanna og framlag sveitarfélags er 12 prósent. Ríki er heimilt er að veita allt að 4 prósent viðbótarframlag vegna íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga, íbúðarhúsnæðis ætlað námsmönnum eða fötluðu fólki. Einnig er heimilt að veita sérstakt byggðaframlag vegna byggingar almennra íbúða á svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki.

Flest­ar íbúð­ir eru ætl­að­ar að­il­um vinnu­mark­að­ar­ins

Stofnframlög hafa verið veitt til uppbyggingar á flestum íbúðum sem ætlaðar hafa verið fyrir tekju- og eignalægri heimili á vinnumarkaði. Rúmlega 41 prósent allra íbúða eru ætlaðar þeim hópi eða samtals 1.663 íbúðir. Þar á eftir eru nánast jafnmargar íbúðir fyrir félagslegar íbúðir, 771 íbúð og námsmenn, 752 íbúðir.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS