4. desember 2024
26. febrúar 2024
Síðustu ár hafa verið mesta byggingarskeið höfuðborgarsvæðisins
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Alls voru 2.042 íbúðir byggðar á höfuðborgarsvæðinu í fyrra, sem er næstmesta byggingarár þess. Frá árinu 2019 hafa verið byggðar 9.311 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, en síðustu fimm ár hafa verið mesta byggingarskeið í sögu borgarinnar og nærliggjandi sveitarfélaga, samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá.
Hægt er að nálgast gögn um íbúðir eftir byggingarári og sveitarfélögum með því að smella á þennan hlekk. Þar sést að uppbygging íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist töluvert eftir mikla niðursveiflu í kjölfar efnahagshrunsins árin 2009-2013, en þá voru einungis byggðar að jafnaði 340 íbúðir á hverju ári.
Frá árinu 2013 hefur mikil uppbygging hins vegar átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu, en hún náði sögulegu hámarki árið 2020 þegar 2.203 íbúðir voru byggðar þar. Í fyrra voru svo byggðar 2.042 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu.
Í sögulegu samhengi er hægt að rýna í nokkra af þeim hæstu punktum síðastliðna áratugi sem sést hér á myndinni hér að neðan. Myndin gefur góða sýn á eitt mesta byggingartímabil í sögu höfuðborgarsvæðisins sem var á tímabilinu 1960 til 1979 þegar uppbygging átti sér stað í Árbænum og Breiðholti, en á þessu tímabili voru byggðar 17.896 íbúðir sem er að meðaltali 900 íbúðir á ári.
Annað byggingartímabil átti sér stað á síðustu árunum fyrir fjármálahrunið, en á árunum 2003-2007 voru byggðar 7.676 íbúðir eða að jafnaði 1.535 íbúðir á ári á tímabilinu. Uppbyggingin náði hámarki árið 2006 þegar 1.982 íbúðir komu á markað á höfuðborgarsvæðinu og var það þá langstærsta byggingarár í sögu borgarinnar.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS