16. febrúar 2024

Rúmlega þúsund nýir samningar í leiguskrá í janúar

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Virkum leigusamningum í nýrri leiguskrá HMS fjölgaði í janúar þar sem 1.092 samningar tóku gildi í mánuðinum
  • Leiguskráin hefur nú að geyma 20 þúsund virka leigusamninga og telur HMS að hún nái utan um meirihluta leigumarkaðarins
  • Markmið leiguskrár HMS er að bæta upplýsingagjöf til leigjenda og þannig stuðla að auknu jafnvægi á leigumarkaði

Alls tóku 1.092 leigusamningar í leiguskrá HMS gildi í janúar. Af þeim voru 758 á höfuðborgarsvæðinu, 181 í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og 153 í öðrum landshlutum. Fjölgunin er á pari við fjölgun síðustu mánaða, ef frá eru taldir ágúst og september.

Á mynd hér að neðan má sjá fjölda leigusamninga í leiguskrá eftir upphafsdögum og landshlutum frá júlímánuði í fyrra.

Fjöldi gildra leigusamninga í leiguskrá eftir upphafsdögum

Fjöldi virkra leigusamninga í Leiguskrá HMS nemur nú um 20 þúsund, en þar af eru rúmlega 14 þúsund á höfuðborgarsvæðinu, rúmlega 3 þúsund í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og rúmlega 2 þúsund í öðrum landshlutum.

HMS telur að Leiguskráin geymi nú um 60 prósent af leigumarkaði, þar sem nýjasta lífskjarakönnun Hagstofu bendir til þess að heimili á leigumarkaði hér á landi séu um 34 þúsund talsins. Markmið HMS er að Leiguskráin nái upp í rúm 80 prósent af markaðnum.

Ný leiguskrá gagnast leigjendum

Með tilkomu Leiguskrárinnar, sem hefur að geyma alla rafræna samninga, auk samninga frá leigufélögum getur HMS miðlað meiri upplýsingum um leigumarkaðinn hérlendis heldur en með fyrri greiningum, sem byggðust á takmarkaðri gögnum. Betri upplýsingagjöf gefur svo nákvæmari mynd af stöðu leigjenda og stuðlar að auknu jafnvægi á leigumarkaðnum.

Við kynningu á Leiguskránni í janúar benti HMS á að mikill munur væri á leiguverði eftir leigusölum, þar sem fermetraverð hjá einstaklingum og hagnaðardrifnum leigufélögum væri rúmlega helmingi hærra en fermetraverð hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum. Hæst var leigan hjá hagnaðardrifnum leigufélögum, en þar var hún 62 prósentum hærri en hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum.

Með breytingum á lögum sem tóku gildi í byrjun síðasta árs var HMS falið að hafa eftirlit með leigumarkaðnum en enginn hafði það hlutverk áður með höndum. Síðan þá hefur verið gert átak til að fá leigufélög til að skrá útleigueignir sínar og nú þegar er að finna 23 þúsund samninga í skránni, þar af um 20 þúsund virka samninga, en áætlað er að 34 þúsund leiguíbúðir séu hér á landi.  Hlutfallslega lítið er þó af leigusamningum í nýrri leiguskrá þar sem leigusalar eru einstaklingar, þar sem þeir eru ekki skráningarskyldir samkvæmt lögum um húsnæðismál.

Raunupplýsingar um stöðu leigumarkaðar á Íslandi hafa ekki verið til staðar fram til þessa. Stjórnvöld hafa því hingað til þurft að taka ákvarðanir um leigumarkaðinn og móta stefnu sína í húsnæðismálum út frá áætluðu mati sem byggist á misvel uppfærðum tölum úr ólíkum áttum og spurningakönnunum meðal fólks á leigumarkaði. 

Leiguskráin er mikilvægur þáttur í gagnaöflun um leigumarkaðinn og gerir HMS meðal annars kleift að ná fram rauntímaupplýsingum um leiguverð og þróun þess með tilliti til staðsetningar, stærðar og annara atriða. Skylda til skráninga húsaleigusamninga nær yfir þá leigusala sem leigja út fleiri en tvær íbúðir, en einnig er það skilyrði húsnæðisbóta að húsaleigusamningur sé skráður í leiguskrá HMS.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS