19. mars 2025

Mikil eftirspurn eftir íbúðum í Garðabæ

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Áætlað er að íbúum fjölgi um 2.251 manns á næstu fimm árum, sem er fjölgun um 8,7%
  • Fjöldi íbúða í byggingu í dag er ekki í takt við fólksfjölgun og áætlaða fjölskyldustærð í sveitarfélaginu
  • Sveitarfélagið stefnir að úthlutun lóða fyrir 2.926 íbúðir á næstu fimm árum til að tryggja nægt framboð

Garðabær hefur staðfest endurskoðun á húsnæðisáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2025. Spáð er að íbúum sveitarfélagsins fjölgi um 4.479 manns á næstu tíu árum, sem er 23,1% aukning. Til samanburðar hefur íbúum í sveitarfélaginu fjölgað um 2.528 frá árinu 2020 eða um 18%.

Mikil ásókn hefur verið eftir því að búa í Garðabæ og hefur fjölgun íbúa í sveitarfélaginu verið hraðari en annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Mikill munur var á mannfjöldaspá og raunfjölgun árið 2024, þegar íbúafjöldinn jókst um 1.028 manns samkvæmt tölum Hagstofunnar, sem er rúmlega 406% umfram spá. Þessi þróun hefur skapað aukna eftirspurn eftir húsnæði og stendur sveitarfélagið nú frammi fyrir því að þurfa að hraða skipulags- og uppbyggingarferli ef mæta á ört vaxandi eftirspurn eftir íbúðum í Garðabæ.

Samkvæmt húsnæðisáætluninni er gert ráð fyrir að þörf verði fyrir um 339 íbúðir á ári, eða um 1.695 íbúðir á næstu fimm árum og 3.389 íbúðir næstu tíu ár. Til samanburðar þá hefur fullbúnum íbúðum fjölgað að meðaltali um 290 íbúðir á ári síðastliðin fimm ár og mest árið 2023 þegar byggðar voru 407 íbúðir.

Samkvæmt talningu HMS voru 596 íbúðir í byggingu í Garðabæ í september 2024. Það var talsverð fækkun frá fyrri árum, eða um 21% færri íbúðir en á sama tíma síðustu tvö ár þar á undan. Á mynd hér að neðan má sjá að meirihluti þeirra íbúða voru á seinni stigum framkvæmda og ættu margar þeirra að koma á markað innan árs frá talningu.
Fjöldi íbúða í byggingu er ekki í takt við áætlaða íbúðaþörf sveitarfélagsins á næstu tveimur árum. Til að tryggja nægt framboð íbúða þurfa talsvert fleiri nýbyggingarverkefni að hafa farið af stað frá síðustu talningu.

Fram­tíð­ar­sýn Garða­bæj­ar

Garðabær stefnir á öfluga íbúðauppbyggingu með áherslu á fjölbreytni, nægt framboð lóða og að innviðir þróist í takt við íbúafjölgun. Gert er ráð fyrir bæði nýjum hverfum og þéttingu byggðar í eldri hverfum til að mæta vaxandi þörf. Helstu uppbyggingarsvæði eru Hnoðraholt, Vetrarmýri og Arnarland, þar sem lögð er áhersla á fjölbreytt íbúðarhúsnæði, atvinnu og þjónustu. Álftanes heldur áfram að þróast með hliðsjón af sérkennum svæðisins og við Hafnarfjarðarveg verður byggð þétt með fjölbreyttum íbúðum. Horft lengra fram veginn er einnig gert ráð fyrir uppbyggingu í Garðaholti og Setbergi, þar sem deiliskipulag er enn í vinnslu.

Markmið Garðabæjar er að tryggja nægt framboð íbúða og fjölbreytt húsnæði sem mætir þörfum ólíkra hópa, hvort sem um er að ræða sérbýli eða fjölbýli. Sérstök áhersla er lögð á að bæta framboð hagkvæmra íbúða, stytta biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði og tryggja sértæk búsetuúrræði fyrir fatlað fólk. Með stefnu sinni leitast Garðabær við að skapa góð skilyrði fyrir áframhaldandi vöxt og þróun á skipulegan hátt.

Nægt lóða­fram­boð til að mæta vax­andi íbúða­þörf

Garðabær hefur nú skipulagt lóðir fyrir 3.870 íbúðir og á næstu fimm árum stefnir sveitarfélagið að því að úthluta lóðum fyrir allt að 2.926 íbúðir. Lóðaframboð ætti því að mæta vel áætlaðri íbúðaþörf á næstu árum gangi úthlutunaráætlanir sveitarfélagsins eftir.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS