20. janúar 2025
19. september 2024
Mánaðarskýrsla HMS september 2024
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Mánaðarskýrsla HMS fyrir september 2024 er komin út, en hana má nálgast með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að fasteignamarkaðurinn ber merki um aukið jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar samhliða minni áhrifum vegna Grindavíkur, þrátt fyrir að eftirspurn sé enn mikil. Á byggingarmarkaði eru helmingi færri framkvæmdir hafnar en gert var ráð fyrir á byggingarhæfum lóðum á höfuðborgarsvæðinu í húsnæðisáætlunum þeirra fyrir 2022 og 2023.
Mánaðarskýrslu HMS má nálgast hér
Myndir að baki mánaðarskýrslunni má nálgast hér
Aukið jafnvægi þrátt fyrir mikla eftirspurn
Fasteignamarkaðurinn ber merki um aukið jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar samhliða minni áhrifum vegna Grindavíkur, þrátt fyrir að eftirspurn sé enn mikil. Grindavíkuráhrifin voru mest í apríl og maí þegar Grindavíkurbúar keyptu heimili á nýjum stað og á sama tíma voru uppkaup Þórkötlu í hámarki.
Framboð íbúða jókst talsvert milli mánaða en á landinu öllu voru um 3.600 íbúðir til sölu í lok ágúst samanborið við um 3.300 íbúðir í lok júlímánaðar.
Vegna mikillar veltuaukningar á fasteignamarkaði hefur birgðatími* styst mikið það sem af er þessu ári. Í júlí lengdist birgðatíminn hins vegar í öllum landshlutum sem er til marks um að markaður leiti jafnvægis. Birgðatími íbúða bendir þó til þess að markaðurinn sé enn á valdi seljenda á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess, en að annars staðar á landinu sé fasteignamarkaðurinn nær því að vera hvorki kaupenda- né seljendamarkaður.
Innan við einn af hverjum tíu leigjendum vill vera á leigumarkaði
Leigumarkaðurinn hefur tekið breytingum frá síðasta ári, en fleiri leigja nú af vinum og ættingjum heldur en áður, samkvæmt niðurstöðum úr árlegri leigumarkaðskönnun HMS. Átta af hverjum tíu leigjendum leigja af nauðsyn og hefur leigjendum sem vilja vera á leigumarkaði fækkað töluvert á síðustu árum.
Grunnfjárhæð húsnæðisbóta hækkaði í júní síðastliðnum, en með því urðu bæturnar stærri hluti af leigufjárhæð bótaþega en áður. Á sama tíma hefur húsnæðisbótaþegum fækkað, en þeir eru nú um 16 þúsund talsins.
Líf og fjör á lánamarkaði í júlí
Lánamarkaðurinn var virkur í júlí en hrein ný íbúðalán til heimila hafa ekki verið meiri á föstu verðlagi í einum mánuði síðastliðin þrjú ár, þrátt fyrir hátt íbúðaverð, háa vexti og þröng lánþegaskilyrði. Viðbúið er að greiðslubyrði margra heimila muni þyngjast fram á næsta vor, þar sem fjöldi óverðtryggðra lána á föstum vöxtum munu þá koma til vaxtaendurskoðunar.
Helmingi færri framkvæmdir hafnar en gert var ráð fyrir á byggingarhæfum lóðum
Á byggingarmarkaði eru helmingi færri framkvæmdir hafnar en gert var ráð fyrir á byggingarhæfum lóðum á höfuðborgarsvæðinu í húsnæðisáætlunum þeirra fyrir 2022 og 2023. Í Kópavogi eru framkvæmdir hafnar á 59 íbúðum á meðan bærinn áætlaði að byggingarhæfar lóðir þess árin 2022 og 2023 gætu séð fyrir uppbyggingu 1.401 íbúðar. Hægt hefur á vexti íbúðafjárfestingar eftir að kippur komst í hana í byrjun árs og er vöxturinn aðallega vegna verkefna á seinni byggingarstigum í stað nýrra verkefna.
*Birgðatími er sá fjöldi mánaða sem tekur að selja núverandi framboð miðað við það sem var selt í mánuðinum á undan
Leiðrétting kl: 16:24
Í upphafi byggingarkafla skýrslunnar var upphaflega umfjöllun um íbúðatalningu HMS fléttað saman við umfjöllun um fjölda framkvæmda á byggingarhæfum lóðum í húsnæðisáætlunum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir árin 2022 og 2023.
Til einföldunar og til að forðast mistúlkanir og misskilning hefur umfjöllun um íbúðatalningu verið tekin út. Jafnframt er minnt á að helstu niðurstöður fyrir seinni íbúðatalningu HMS fyrir þetta ár verða kynntar í næstu viku.
Beðist er velvirðingar á þessu.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS