27. september 2023

Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir september 2023

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Íbúðaverð helst stöðugt að nafnvirði. Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,7% í ágúst. Síðastliðna tólf mánuði hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 2,0% og hefur raunverð því lækkað um 5,3%. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins lækkaði verðið um 1,4% milli mánaða og annars staðar á landinu lækkað verðið um 1%. Síðastliðna tólf mánuði hefur verð á íbúðum hækkað um 1,4% í nágrenni höfuðborgarsvæðis en annars staðar á landinu hefur verðið hækkað um 8%. Raunverð íbúða hefur lækkað um 5,8% í nágrenni höfuðborgarsvæðisins en hækkað um 0,2% annars staðar á landinu.
  • Kaupsamningum um íbúðarhúsnæði fækkaði í júlí frá fyrri mánuði. Gerðir voru samtals 615 samningar um kaup á íbúðarhúsnæði í júlí samanborið við 709 samninga í júní. Á þessu ári hafa að meðaltali 614 samningar verið gerðir á mánuði samanborið við 825 samninga á mánuði að meðaltali fyrstu sjö mánuði síðasta árs.
  • Í ágúst komu 240 nýbyggðar íbúðir inn á markað á landinu öllu, samanborið við 398 íbúðir sem komu inn á markað í júlímánuði sem gerir 39,7% fækkun milli mánaða. Samtals hafa 2.276 nýbyggðar íbúðir komið inn á markað til þessa á árinu.

Fram­boð íbúða eykst lít­il­lega

Um þessar mundir eru tæplega 3.200 íbúðir til sölu á landinu og fjölgar þeim um 75 íbúðir frá fyrri mánuði. Á höfuðborgarsvæðinu eru 1.907 íbúðir til sölu, þar af 622 nýjar sem gerir tæplega 33% allra íbúða til sölu. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins er 691 íbúð til sölu, þar af eru 239 nýjar eða um 35% allra íbúða til sölu. Annars staðar á landinu eru 568 íbúðir til sölu þar af 73 nýjar eða um 13% allra íbúða til sölu.

Lands­mönn­um fer áfram fjölg­andi

Mesta fjölgun mannfjölda hér á landi frá upphafi mælinga átti sér stað í fyrra þegar íbúum fjölgaði um 11.510 manns eða 3,1%. Á fyrri helmingi þessa árs hefur landsmönnum fjölgað um tæp 1,7% og haldist sama þróun áfram á seinni helming ársins þá verður fjölgun mannfjölda í ár meiri en í fyrra. Með áframhaldandi þróun þá verða íbúar landsins orðnir rúmlega 400 þúsund í lok árs og mun áframhaldandi þróun mannfjöldans auka þörfina fyrir nýjar íbúðir. Í dag eru 70.540 erlendir ríkisborgarar á Íslandi eða um 17,9% af heildarmannfjölda. Samkvæmt staðgreiðslugögnum frá Skattinum hefur hlutfall starfandi innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði fjórfaldast frá árinu 2003, úr 5,1% af öllum starfandi í 20,6% árið 2022. Í aldursflokknum 26-36 ára þá eru erlendir ríkisborgarar um og yfir 30% af heildarmannfjölda þess aldursbils.

Í fyrra komu tæplega 3000 nýbyggðar íbúðir inn á markað á sama tíma og fjölgun landsmanna nam 11.510 einstaklingum. Fjölskyldustærð á Íslandi fyrir síðasta áratug er 2,53 íbúar á hverja íbúð að meðaltali en þó ber að nefna að fjölskyldustærð er örlítið breytileg eftir svæðum og byggðarlögum. Miðað við þetta meðaltal hefðu rúmlega 4.500 nýjar íbúðir þurft að koma inn á markað í fyrra til að mæta fjölgun mannfjöldans. Þegar meta á húsnæðisþörf hefur samsetning mannfjöldans mikil áhrif. Erlendir ríkisborgarar sem hingað flytja eru líklegri til að flytja frá landinu en aðrir og einnig má búast við að þörf þeirra fyrir húsnæði sé ólík öðrum. Vegna þess að það tekur þá tíma að festa hér rætur gætu þeir frekar viljað leiguhúsnæði en húsnæðis til eignar. Þá eru þeir hugsanlega einnig líklegri til að vilja deila íbúð með öðrum.

Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast hér

Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast hér

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS