10. apríl 2025
11. apríl 2025
Íbúum fjölgar í Skagafirði
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Áætluð íbúðaþörf eykst á milli áætlana vegna aukinnar fólksfjölgunar undanfarin tvö ár.
- Byggja þyrfti árlega 10 íbúðir til viðbótar til þess að halda í íbúðaþörf.
- Sveitarfélagið stefnir að úthlutun lóða fyrir 147 íbúðir á næstu tveimur árum til að tryggja nægt framboð.
Sveitarfélagið Skagafjörður hefur staðfest endurskoðaða húsnæðisáætlun fyrir árið 2025. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að íbúum sveitarfélagsins muni fjölga um 415 á næstu tíu árum, sem samsvarar 9,4% aukningu. Til samanburðar hefur íbúum fjölgað um 106 frá árinu 2021, eða 2,5%.
Íbúðaþörf aukist mikið á síðustu tveimur árum
Samkvæmt húsnæðisáætluninni er áætlað að þörf verði að meðaltali fyrir um 19 nýjar íbúðir á ári eða alls 92 íbúðir á næstu fimm árum og 188 á næstu tíu árum. Íbúðauppbygging í Skagafirði hefur aukist nokkuð undanfarin ár og hefur fullbúnum íbúðum fjölgað að meðaltali um 17 á ári síðustu fimm ár, og um 13 íbúðir á ári síðustu tíu ár sem nánast í samræmi við áætlaða þörf. Vegna aukinnar fólksfjölgunar síðastliðin tvö ár, þegar íbúum sveitarfélagsins fjölgaði umfram spár, þá er nú gert ráð fyrir þörf fyrir fleiri íbúðir árlega heldur en í fyrri áætlunum.
Byggja þarf fleiri íbúðir
Samkvæmt nýjustu talningu HMS voru 28 íbúðir í byggingu í Skagafirði í mars 2025. Það er aðeins færri en á sama tíma síðustu tvö ár. Í mars í fyrra voru 9,7% fleiri íbúðir í byggingu og í mars 2023 voru þær 12,5% fleiri en þær eru nú. Á myndinni hér að neðan má sjá að flestar íbúðirnar eru á framvindustigum 4 og 5, sem þýðir annars vegar að mannvirkið er fokhelt og hins vegar að það er tilbúið til innréttingar. Þær íbúðir ættu því flestar að skila sér á markaðinn á þessu ári.
Fjöldi íbúða sem nú teljast í byggingu nægir ekki til þess að mæta þeirri íbúðaþörf sem sveitarfélagið áætlar að verði á næstu tveimur árum. Byggja þyrfti að meðaltali um 10 íbúðir til viðbótar árlega til að halda í við áætlaða þörf sé tekið mið af þeim fjölda sem nú er í byggingu og að uppbyggingin verði með sama takti.
Markmið Skagafjarðar í húsnæðismálum
Sveitarfélagið Skagafjörður stefnir að því að mæta ólíkum húsnæðisþörfum íbúa með fjölbreyttu framboði íbúða í öllum þéttbýliskjörnum. Áhersla er lögð á skipulag íbúðahverfa með fjölbreyttum húsagerðum þar sem einbýlishús eru algengust, en jafnframt er stefnt að því að bjóða upp á lóðir undir fjölbýli og hagkvæmt húsnæði fyrir fyrstu kaupendur og þá sem vilja minnka við sig.
Gott atvinnuástand og fjölbreytt atvinnustarfsemi laðar að fleiri íbúa til Skagafjarðar. Sveitarfélagið vinnur markvisst að því að skapa skilyrði fyrir fjölgun bæði starfa og íbúa, meðal annars með uppbyggingu leikskóla, iðnaðar- og athafnasvæða og með stuðningi við verkefni tengd grænni orku og ferðaþjónustu.
Nægt lóðaframboð til að mæta vaxandi íbúðaþörf
Skagafjörður hefur nú skipulagt lóðir fyrir 147 íbúðir á næstu 2 árum. Lóðaframboð ætti því að mæta vel áætlaðri íbúðaþörf gangi úthlutunaráætlanir eftir. Hins vegar er ekki sjálfgefið að lóðir sem úthlutað er verði nýttar til byggingar innan tilskilins tíma. Uppbygging veltur á þáttum eins og fjármögnun, áhuga verktaka og skilyrðum á fasteignamarkaði og því geta þessir þættir haft áhrif á misræmi milli áætlana og framkvæmda sem farið verði í.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS