29. apríl 2025
14. júní 2024
Hveragerðisbær er ekki að byggja í takt við vænta fólksfjölgun
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Spáð er að íbúum í Hveragerðisbæ fjölgi um 609 manns eða um 18,2 prósent á næstu 5 árum
- Fjöldi íbúða í byggingu í dag er ekki í takt við fólksfjölgun í sveitarfélaginu
- Nægt lóðaframboð er til staðar í Hveragerðisbæ en uppbygging innviða mun koma til með að stýra hraða úthlutana á lóðum
Hveragerðisbær hefur staðfest endurskoðaða húsnæðisáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2024. Áætlunin inniheldur miðspá um mannfjöldaþróun í sveitarfélaginu, sem gerir ráð fyrir að íbúum þar muni fjölga um 18 prósent næstu 5 árin og 37 prósent næstu 10 árin. Mikil fólksfjölgun hefur verið í sveitarfélaginu síðustu ár en frá árinu 2020 hefur íbúum í Hveragerði fjölgað um 564 manns eða rúmlega 20 prósent.
Endurskoðuð húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar áætlar að þörf sé fyrir um 48 íbúðir á ári, 240 íbúðir næstu 5 ár og 488 íbúðir næstu 10 ár. Á árinu 2022 fjölgaði fullbúnum íbúðum í sveitarfélaginu um 99 íbúðir en í fyrra fjölgaði þeim aðeins um 41 íbúð. Það sem af er ári hefur fullbúnum íbúðum fjölgað um 7 íbúðir.
Í talningu HMS voru 76 íbúðir í byggingu í mars síðastliðnum og hafði þeim fjölgað um 6 frá marsmánuði 2023. Meirihluti íbúða í byggingu eru á fyrri framvindustigum.
Fjöldi íbúða í byggingu er ekki í takt við áætlaða íbúðaþörf samkvæmt mannfjöldaspá húsnæðisáætlunarinnar en miðað við 24 mánaða framleiðslutíma þá þyrftu að vera um 100 íbúðir í byggingu að hverju sinni til þess að uppfylla íbúðaþörf.
Stefna sveitarstjórnar til ársins 2026 er að íbúum Hveragerðisbæjar muni fjölga um 4,7% á ári. Fjöldi íbúða á skipulögðum svæðum fram til 2033 er langt umfram áætlaða íbúðaþörf í sveitarfélaginu og hefur því bæjarstjórn gott tækifæri til að stýra hversu hröð íbúafjölgunin verður á komandi árum með því að stýra úthlutun lóða. Hveragerðisbær hefur nú skipulagt lóðir fyrir 995 íbúðir. Á næstu 5 árum stefnir sveitarfélagið á að skapa skilyrði til að úthluta byggingarhæfum lóðum fyrir allt að 545 íbúðir svo lóðaframboð mæti vel áætlaðri íbúðaþörf. Helsta áskorun sveitarfélagsins er uppbygging innviða í sveitarfélaginu.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS