13. maí 2025

HMS leggur til breytingar á kerfi sem virkar ekki 

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) leggur til að farið verði í róttækar breytingar á eftirliti með byggingaframkvæmdum hér á landi. Meðal breytinganna er að ytra eftirlit verði fært til óháðra skoðunarstofa, byggingastjórakerfið lagt niður og tekin upp byggingargallatrygging til þess að vernda neytendur. Tillögurnar eru settar fram í nýjum Vegvísi HMS að breyttu byggingareftirliti sem kom út í dag og kynntur var á vel sóttum opnum fundi HMS í gær.

Byggingargallar sem leiða til raka- og mygluvandamála í nýlegu íbúðarhúsnæði, skrifstofubyggingum og öðrum mannvirkjum eru reglulega til umfjöllunar í fjölmiðlum. Núverandi fyrirkomulagi byggingareftirlits er ætlað að lágmarka galla en virkni eftirlitsins hefur reynst vera takmörkuð. Ný úttekt HMS úr Mannvirkjaskrá sýnir að á nýframkvæmdum sem hófust á árinu 2023 er yfir 70% útgefinna byggingarleyfa þar sem skil áfangaúttekta er verulega ábótavant. Sama gildir um stöðuskoðanir byggingarfulltrúa. 

Afleiðingar byggingargalla geta verið mjög slæmar fyrir heilsu fólks og fjárhag. Neytendur sitja uppi með mikið fjárhagslegt tjón og rekstur stofnana og fyrirtækja getur raskast verulega vegna slíkra mála. 

Að mati HMS er núverandi fyrirkomulag byggingareftirlits fullreynt og tími til kominn að bregðast við. Í vegvísinum er gert ráð fyrir að byggingarstjórakerfið verði lagt niður og að byggingareftirlit færist frá byggingarfulltrúum sveitarfélaga til fagaðila undir hatti óháðra skoðunarstofa. Þá verði núverandi starfsábyrgðatryggingar aflagðar og sérstök byggingargallatrygging tekin upp í staðinn, að danskri fyrirmynd. Þetta mun auðvelda neytendum að fá úrlausn sinna mála þegar gallar koma í ljós. 

Tillögurnar eru lagðar fram til rýni og áframhaldandi vinnslu í samstarfi við hagaðila. Gert er ráð fyrir að byggingargallatryggingin verði bundin við íbúðarhúsnæði og gildi í 10 ár frá því að íbúð er tekin í notkun. Með henni verði tryggð ábyrgð verkeiganda gagnvart endanlegum kaupanda. Hönnuðir og iðnmeistarar beri áfram ábyrgð á sínum verkum gagnvart verkeiganda samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar. Gert er ráð fyrir að innleiða breytingarnar í tveimur skrefum þar sem byrjað er á breyttu fyrirkomulagi byggingareftirlits og í kjölfar þess tekið upp nýtt fyrirkomulag trygginga.

Með áðurnefndum breytingum yrði til sanngjarnara kerfi fyrir þá verkeigendur (verktakar og fjárfestar), iðnmeistara og hönnuði sem standa sig vel og neytendur væru betur varðir. Hagkvæmni og skilvirkni byggingariðnaðarins myndi aukast, hús yrðu vandaðri og kostnaður við byggingu og viðhald húsa lægri til lengri tíma litið.

Gert er ráð fyrir að kostnaður af tillögunum verði metinn. Við það mat verður tekið tillit til þess kostnaðar sem fellur niður samhliða þ.e. kostnaðar viðbyggingastjórakerfið og vegna starfsábyrgðatrygginga. Einnig verði metinn þjóðhagslegur ávinningur breytinganna. Miðað við kostnað af byggingargöllum á Norðurlöndum gæti kostnaður vegna byggingargalla á Íslandi numið að minnsta kosti 25 milljörðum króna á ársgrundvelli.

Hér má nálgast vegvísi HMS um breytt byggingareftirlit.

 

Upp­taka af fundi um breytt bygg­ing­ar­eft­ir­lit

Mynd­ir frá fund­in­um

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS