8. júlí 2025
18. júní 2021
HMS dregur úr losun frá rekstri og kolefnisjafnar
Samkvæmt niðurstöðum Græns bókhalds HMS nam heildarlosun stofnunarinnar um 41 tonni á árinu 2019 en hún dróst saman niður í rúm 23 tonn á árinu 2020.
Samkvæmt niðurstöðum Græns bókhalds HMS nam heildarlosun stofnunarinnar um 41 tonni á árinu 2019 en hún dróst saman niður í rúm 23 tonn á árinu 2020.
Samdrátturinn byggist allur á færri millilandaferðum á árinu 2020 miðað við árið áður. Hins vegar má sjá að losunin jókst í öðrum flokkum, þ.e. vegna rafmagns, aksturs og úrgangs. Þá aukningu má meðal annars skýra með betri gögnum í bókhaldinu 2020 miðað við árið 2019, en árið 2020 var fyrsta starfsár sameinaðrar stofnunar (tölur vegna ársins 2019 byggjast á bókhaldi forvera HMS, þ.e. Mannvirkjastofnunar annars vegar og Íbúðalánasjóðs hins vegar). Þá féll mikill úrgangur til vegna tiltektar í fyrrum húsnæði Mannvirkjastofnunar, sem farið var í við samruna Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar í upphafi árs 2020.
HMS hefur kolefnisjafnað þá losun sem stafaði af starfseminni á árunum 2019 og 2020 og meira til, með gróðursetningu trjáa í samvinnu við Sólheima. Öll þeirra ræktun er lífræn og Tún-vottuð. Auk kolefnisjöfnunarinnar skapar þátttakan í verkefninu mikilvæg störf fyrir íbúa Sólheima.
Mat á losun frá starfsemi HMS og samdráttur í henni er í samræmi við umhverfis- og loftslagsstefnu stofnunarinnar, sem stjórn HMS samþykkti 2020. Tilgangur stefnunnar er að draga markvisst úr kolefnislosun og öðrum neikvæðum umhverfisáhrifum sem stafar af starfsemi stofnunarinnar, hafa jákvæð áhrif á vistvæna þróun helstu hagaðila stofnunarinnar, miðla árangri og hafa þannig bein og óbein áhrif á loftlagsskuldbindingar landsins. Í henni kemur einnig fram að fram að til ársins 2030 muni HMS draga úr kolefnislosun á ársverk um 40% miðað við árið 2019 vegna samgangna, úrgangs og orkunotkunar. Stefnunni er meðal annars fylgt eftir með innleiðingu Grænna skrefa í ríkisrekstri, sem hófst hjá HMS í mars 2020.