1. október 2025
1. október 2025
Flestar nýjar lóðir í september voru sumarhúsalóðir
- 160 nýjar lóðir voru stofnaðar í september 2025
- Flestar lóðir sem skráðar voru í september voru af gerðinni sumarhúsalóð
- Flestar sumarhúsalóðir voru skráðar í Rangárþingi eystra
Alls voru 160 nýjar lóðir staðfestar í fasteignaskrá HMS í septembermánuði 2025 og fjölgaði þeim um 40 á milli mánaða. Flestar þeirra eru sumarbústaðalóðir eða alls 63 talsins. Auk þess voru skráðar 51 íbúðarhúsalóð og 25 atvinnuhúsalóðir. Aðrar tegundir voru 22 talsins.
Myndin hér að ofan sýnir mánaðarlegar tölur um fjölda nýskráðra lóða eftir öllum flokkum. Lóðir skráðar sem annað land eða einfaldlega lóð voru 18 talsins í september, en líklegt er að þessar lóðir breyti um gerð þegar fram líða stundir og verði skráðar sem atvinnu-, sumarhúsa- eða íbúðarlóðir.
Fyrsta nýja lóðin í Tjörneshreppi síðan nóvember 2021
Flóahreppur á metið í íbúðarhúsalóðum í september. Samtals voru tólf íbúðarhúsalóðir skráðar þar. Næst á eftir kemur Sveitarfélagið Árborg með 10 lóðir. Skagafjörður og Norðurþing eru þar rétt á eftir. Skemmtileg staðreynd er að stofnuð var íbúðarhúsalóð í Tjörneshreppi en það er fyrsta lóðin sem stofnuð er þar síðan 2021. Það er þó ekki ný byggingarlóð því lóðin var stofnuð í kringum hús sem var byggt fyrir allnokkru síðan.