31. desember 2024
8. nóvember 2024
Ekki verið að byggja nóg til að mæta íbúðaþörf á Austurlandi
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Fjöldi íbúða í byggingu á Austurlandi er ekki nægilega mikill til þess að mæta íbúðaþörf samkvæmt húsnæðisáætlunum sveitarfélaga í landshlutanum. Þetta kom fram á opnum fundi sem HMS stóð fyrir á Egilsstöðum í samstarfi við Austurbrú og Samtök iðnaðarins.
Á fundinum var fjallað um stöðu íbúðauppbyggingar og framtíðarhorfur á Austurlandi. Niðurstöðurnar byggja annars vegar á upplýsingum úr húsnæðisáætlunum sveitarfélaganna og niðurstöðum talningar á íbúðum í byggingu sem fór fram í september.
Þörf á 90 íbúðum á ári á Austurlandi
Öll sveitarfélög á Austurlandi staðfestu húsnæðisáætlun ársins 2024. Samkvæmt miðspá húsnæðisáætlana er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi um 834 á næstu fimm árum og um 1.744 á næstu 10 árum.
Það sem af er ári er íbúum Austurlands að fjölga í takt við það sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Miðað við spá um mannfjölgun í landshlutanum þá er áætluð þörf fyrir 463 íbúðir á næstu 5 árum og 874 íbúðir á næstu 10 árum, eða um 90 íbúðir á ári.
Íbúðir í byggingu þyrftu að vera 60 prósent fleiri
Samkvæmt talningu HMS á íbúðum í byggingu má hins vegar gera ráð fyrir því að einungis 36 nýjar fullbúnar íbúðir muni koma inn á fasteignamarkað árið 2025 og 55 íbúðir árið 2026.
Talning HMS sýnir að fjöldi íbúða í byggingu jókst um tæp 9 prósent á milli ára. Í september voru 114 íbúðir í byggingu, samanborið við 105 íbúðir á sama tíma í fyrra. Ef miðað er við tveggja ára byggingartíma þá þyrftu að vera nær 180 íbúðir í byggingu að hverju sinni til þess að mæta íbúðaþörf í landshlutanum, en til þess þyrfti umfang íbúðauppbyggingar að aukast um 60 prósent.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS