9. júlí 2024

Borgarbyggð áætlar að þörf sé fyrir um 500 íbúðir á næstu 10 árum

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Áætlað er að íbúum Borgarbyggðar fjölgi um 372 manns eða tæplega 9 prósent á næstu 5 árum
  • Fjöldi íbúða í byggingu í dag er ekki í takt við fólksfjölgun í sveitarfélaginu
  • Stefna á að úthluta lóðum fyrir 227 íbúðir á næstu 5 árum

Borgarbyggð hefur staðfest endurskoðun á húsnæðisáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2024. Áætlunin inniheldur miðspá um mannfjöldaþróun í sveitarfélaginu, sem gerir ráð fyrir að íbúum þar muni fjölga um 18 prósent næstu 10 árin. Íbúafjölgun á síðasta ári var mun meiri en fyrri áætlun gerði ráð fyrir og mannfjöldaspá því endurskoðuð með tilliti til þess.

Samkvæmt endurskoðaðri húsnæðisáætlun Borgarbyggðar er áætlað að þörf sé fyrir um 54 íbúðum á ári, 271 íbúðum á næstu 5 árum og 506 íbúðum á næstu 10 árum. En á síðasta ári fjölgaði fullbúnum íbúðum í Borgarbyggð um 89.

Í marstalningu HMS voru 29 íbúðir í byggingu í Borgarbyggð og hafði þeim fækkað um 12 prósent frá því í september 2023. Meirihluti íbúða í byggingu voru fokheldar eða lengra komnar og eru því væntanlegar á markað seinna á þessu ári eða byrjun næsta árs. Fjöldi íbúða í byggingu er ekki í takt við áætlaða íbúðaþörf samkvæmt mannfjöldaspá húsnæðisáætlunar. 

Nokkur spennandi skipulagsverkefni eru fram undan sem stuðla að fjölbreyttari búsetukostum fyrir íbúa bæði í dreif- og þéttbýli. Til dæmis verkefnið um blandaða byggð í Brákarey, íbúðarbyggingu á Kveldúlfshöfða í Borgarnesi og uppbyggingu á nýju hverfi á svæði handan Borgarvogsins ásamt tilheyrandi innviðum. Þá er jafnvel gert ráð fyrir tvöföldun íbúafjölda í Borgarnesi þegar það hverfi verður tilbúið.

Borgarbyggð hefur nú skipulagt lóðir fyrir 1.609 íbúðir en aðeins 90 af þeim eru byggingarhæfar. Á næstu 5 árum stefnir sveitarfélagið á að skapa skilyrði til að úthluta byggingarhæfum lóðum fyrir allt að 227 íbúðir svo lóðaframboð mæti áætlaðri íbúðaþörf.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS