31. desember 2024
11. nóvember 2024
Átaksverkefni um bilunarstraumsrofa
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Eitt mikilvægasta öryggistæki heimilisins er bilunarstraumsrofinn (lekastraumsrofinn). Hann rýfur strauminn í raflögninni verði bilun í henni, til dæmis í raftæki, og kemur þannig í veg fyrir slysa- og brunahættu. Af þessu tilefni hefur HMS skoðað markaðssetningu bilunarstraumsrofa ásamt því að yfirfara niðurstöður skoðana á neysluveitum, þ.e. raflögnum, varðandi virkni bilunarstraumsrofa. Í yfirferðinni var sérstaklega horft til útleysitíma og virkni prófunarhnapps bæði í nýjum og eldri raflögnum.
Almennt virðist ástand á bilunarstraumsrofum gott, bæði hvað varðar markaðssetningu og virkni í nýjum og nýlegum rofum. Hins vegar er ástandið ekki eins gott hjá eldri bilunarstraumsrofum í gömlum raflögnum.
HMS gerði athugun á markaðssetningu bilunarstraumsrofa hjá níu söluaðilum og sýndu niðurstöðurnar að bilunarstraumsrofar á markaði uppfylli almennt þær kröfur sem gerðar eru til markaðssetningar raffanga. Mjög fáar athugasemdir komu fram í skoðununum og þær sem fram komu voru ekki alvarlegar.
Yfirferð á niðurstöðum skoðana sýna að allir nýir eða nýlegir bilunarstraumsrofar, samtals 246 rofar, virkuðu rétt þegar prófað var með tilliti til útleysitíma og virkni prófunarhnapps. Í gömlum raflögum var ástand bilunarstraumsrofa ekki alveg jafn gott. Af 153 skoðuðum rofum reyndust 16, eða um 10 prósent, ekki virka rétt. Margar ástæður geta verið fyrir þessu, en til dæmis eru sumir af þessum bilunastraumsrofum áratuga gamlir og komnir að lokum „líftíma“ síns. Einnig gætu sumir þeirra verið staðsettir í „erfiðu“ umhverfi þar sem óhreinindi komast að þeim, og í sumum tilvikum hefur virkni prófunarhnappsins mögulega ekki verið prófuð reglulega.
Til að bilunarstraumsrofi virki sem skyldi þarf að halda honum í æfingu, eða liðka hann, þar sem hann getur stífnað með tímanum. HMS vill því minna á nokkur atriði varðandi notkun og viðhald bilunarstraumsrofa (lekaliða):
- Bilunarstraumsrofa þarf að prófa með prófunarhnappi að minnsta kosti einu sinni á ári til að koma í veg fyrir að hann stífni. Það er gert með því að styðja á hnapp sem yfirleitt er merktur „T“ eða „Test“ og þá á bilunarstraumsrofinn að rjúfa strauminn í raflögninni. Hann er svo settur inn aftur með „Af/Á“ rofanum
- Ef bilunarstraumsrofinn rýfur ekki þegar ýtt er á prófunarhnappinn getur verið nóg að slá honum út og inn nokkrum sinnum með „Af/Á“ rofanum og prófa svo aftur með prófunarhnappinum
- Best er að hafa slökkt á orkufrekum eða viðkvæmum búnaði á meðan bilunarstraumsrofinn sé prófaður
- Ef bilunarstraumsrofinn virkar ekki við prófun og tilraunir til að liðka hann skila engu, er kominn tími til að fá löggiltan rafverktaka til að skipta honum út og athuga hvort annar varbúnaður sé í lagi
Þar sem í notkun eru LED ljós og annar rafeindabúnaður eins og hleðslutæki fyrir síma, fartölvur og önnur tæki með rafhlöðum, gæti verið kominn tími á að fá löggiltan rafverktaka til að skipta um bilunarstraumsrofa og setja nýjan sem þolir slíkan búnað.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS