19. mars 2024

Árleg íbúðaþörf Skagafjarðar þrefaldast í nýrri húsnæðisáætlun

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Skagafjörður spáir að íbúum sveitarfélagsins fjölgi um nærri 180 manns eða um 4,1% á næstu 5 árum
  • Fjöldi íbúða í byggingu í dag er ekki í takt við fólksfjölgun í sveitarfélaginu
  • Skagafjörður ætlar að skapa skilyrði svo mögulegt verði að byggja 68 íbúðir á næstu 5 árum

Byggja þyrfti þrefalt fleiri íbúðir á ári hverju í Skagafirði en áður var talið til að halda í takt við fólksfjölgun. Fjölga þarf íbúðum í byggingu í sveitarfélaginu, en þörf er á um 80 íbúðum þar á næstu fimm árum til að til að sinna fyrirhugaðri íbúðaþörf. Þetta kemur fram í endurskoðaðri húsnæðisáætlun Skagafjarðar fyrir árið 2024.

Nýja húsnæðisáætlunin gerir ráð fyrir að íbúar sveitarfélagsins verði tæplega 4.600 talsins árið 2028. Líkt og myndin hér að neðan sýnir þá hefur fjöldi íbúa í sveitarfélaginu aukist um 7,4% frá árinu 2021 og hefur mannfjöldaaukningin verið nokkuð umfram fyrri spár. Samkvæmt miðspá um mannfjöldaþróun þá áætlar sveitarfélagið að mannfjöldi aukist um 21,9% næstu 10 árin.

Samkvæmt húsnæðisáætluninni er áætlað að þörf verði fyrir um 16 íbúðir á ári, 81 íbúð á næstu 5 árum og 165 íbúðir á næstu 10 árum.

Myndin hér að neðan sýnir árlega áætlaða íbúðaþörf, auk uppsafnaðrar íbúðaþarfar samkvæmt húsnæðisáætlunum sveitarfélagsins síðustu árin. Húsnæðisþörfin hefur aukist með hverri endurskoðun húsnæðisáætlunar, en í fyrri áætlunum var hún metin í kringum 5 íbúðir á hverju ári á tímabilinu 2023-2032.

Í íbúðatalningu HMS voru 32 íbúðir í byggingu í september 2023 sem var sami fjöldi og í mars sama ár. Flestar íbúðirnar voru á síðari stigum framkvæmdar, þ.e. fokheldar eða lengra komnar, en líkt og myndin hér að neðan sýnir þá voru 28 af þeim 32 íbúðum í byggingu við síðustu íbúðatalningu á þeim framvindustigum. Fjöldi íbúða í byggingu er ekki í takt við áætlaða íbúðaþörf næstu ára samkvæmt mannfjöldaspá húsnæðisáætlunar og þörf fyrir að fjölga íbúðum í byggingu. Á árinu 2023 komu 8 fullbúnar íbúðir á markað í Skagafirði og má telja líklegt að um 12 íbúðir bætist við í ár mv. stöðu framkvæmda í september síðastliðinn, en ein íbúð telst fullbúin framan af ári.

Markmið sveitarfélagsins er að tryggja að mæta megi mismunandi þörfum fyrir íbúðir með framboði af fjölbreyttu húsnæði í öllum þéttbýliskjörnum Skagafjarðar. Aukning er í eftirspurn eftir minna húsnæði og hefur þeirra eftirspurn verið svarað með úthlutun fleiri lóða fyrir par-, rað- og fjölbýlishús.

Á næstu 5 árum stefnir sveitarfélagið á að skapa skilyrði til að úthluta byggingarhæfum lóðum fyrir 68 íbúðir svo lóðaframboð mæti áætlaðri íbúðaþörf næstu ára en skipuleggja þarf lóðir fyrir fleiri íbúðir ef tryggja á nægjanlegt framboð nýrra íbúða til næstu 5 ára sem og lengri tíma. Lóðaframboð sveitarfélagsins má sjá á mynd hér að neðan, þar sem 44 lóðir eru byggingarhæfar og 24 lóðir í samþykktu deiliskipulagi eða á framtíðarsvæði.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS