16. apríl 2025
15. apríl 2025
53 umsóknir um hlutdeildarlán í apríl 2025
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Andvirði umsókna um hlutdeildarlán nam um 732 milljónum króna en 357 milljónir króna eru til úthlutunar.
- 51 umsókn að andvirði um 701 milljón króna var með samþykktu kauptilboði.
- Mikill meirihluti umsókna er vegna íbúða á höfuðborgarsvæðinu og flestar til kaupa á íbúðum í Hafnarfirði.
Alls bárust HMS 53 umsóknir um hlutdeildarlán í apríl að andvirði um 732 milljóna króna, en 357 milljónir króna eru til úthlutunar fyrir tímabilið. HMS vinnur að yfirferð umsókna og stefnt er á að klára afgreiðslu þeirra fyrir lok apríl.
Í ljósi mikillar eftirspurnar umfram það fjármagn sem er til úthlutunar, er útlit fyrir að draga þurfi úr samþykktum umsóknum í samræmi við forgangsreglur þar sem talsverðar líkur eru á að upphæð samþykktra umsókna verði umfram þá fjárhæð sem er til úthlutunar að þessu sinni.
Meirihluti umsókna til kaupa á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu
Flestar umsóknir bárust vegna kaupa á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem alls var sótt um hlutdeildarlán að fjárhæð 534 milljónir króna vegna 37 íbúða. Þessar íbúðir eru staðsettar í Reykjavík, Hafnarfirði og Mosfellsbæ. Á vaxtarsvæðum eru flestar umsóknir vegna íbúða á Suðurnesjum, einkum í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. Á landsbyggðinni er m.a. sótt um lán vegna íbúða á Hellu og Neskaupsstað.
Umsóknir með samþykkt kauptilboð í forgangi
Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og standa þau til boða fyrir fyrstu kaupendur og þau sem ekki hafa átt íbúð síðastliðin fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum. Í forgangi eru umsóknir þar sem staðfest kauptilboð liggur fyrir, auk þess sem miða skal við að á hverju ári verði að minnsta kosti 20% veittra hlutdeildarlána veitt til kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS