Byggingarleyfi á Íslandi
Byggingarleyfi á Íslandi
Byggingarleyfi á Íslandi
Byggingarleyfi á Íslandi
Byggingarleyfi á Íslandi
Byggingarleyfi á Íslandi
HMS hefur í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og Stafrænt Ísland unnið að þróun stafræns umsóknarviðmóts fyrir byggingarleyfi. Viðmótið hefur verið unnið í nánu samstarfi við aðila sem koma að ferlinu, þar með talið sveitarfélög, byggingafulltrúaembætti, byggingaraðila og hönnuði. Nýja viðmótið mun samræma verklag við umsókn og afgreiðslu byggingarleyfa þvert á öll sveitarfélög en vegferðin er rétt að byrja.
Umsóknarviðmótið er leiðbeinandi og notendavænt og þegar 2. áfangi verkefnisins, afgreiðsluviðmót sveitarfélaga bætist við þá munu betri og samræmd gögn berast til byggingarfulltrúa sveitarfélaganna. Verklag fyrir starfsfólk sveitarfélaga verður mun einfaldara í nýju afgreiðsluviðmóti sveitarfélaganna og leyfisveitingar skilvirkari. Þá er einnig lagður grunnur að stórbættri gagnasöfnun um mannvirki sem eykur gæði upplýsinga um mannvirkjagerð á Íslandi. Umsóknarviðmótið stuðlar að auknum rekjanleika og gagnsæi í mannvirkjagerð sem skilar sér bæði í einfaldari og samræmdari stjórnsýslu og samfélagslegum ávinningi til hagsmunaaðila og neytenda.
Með nýja viðmótinu er enn fremur skerpt á hlutverkum upplýsingakerfa hins opinbera. Umsýsla byggingarleyfa er færð yfir í stafræna lausn sem er sérstaklega hönnuð fyrir skilvirka og aðgengilega afgreiðslu. Öll gögn uppfærast á milli viðmótsins og málaskrárkerfa sveitarfélaga en ákvörðunarvald varðandi byggingarleyfi verður áfram á höndum hvers sveitarfélags.
Til að byrja með mun umsóknarviðmótið taka á móti hönnunargögnum inn í mannvirkjaskrá og samhliða uppfærast í málaskrárkerfi sveitarfélaga. Síðar, við þróun notendaviðmótsins, mun það halda utan um alla vinnslu sveitarfélaganna sem viðkemur byggingarleyfum. Það verður bylting fyrir alla aðila sem koma að byggingarverkefnum því með tilkomu þess munu fleiri en aðalhönnuðir geta unnið í umsóknum, staðfest aðkomu sína að þeim og skilað þeim inn. Góð yfirsýn mun fást yfir stöðu umsókna og samskipti við byggingarfulltrúa og hönnuði séruppdrátta. Hægt verður að sjá allar athugasemdir byggingarfulltrúa í réttu samhengi á teikningum og fá allar teikningar inn í einu setti til rafrænnar undirritunar.
Samhliða þessu verkefni leggur HMS áherslu á áframhaldandi þróun mannvirkjaskrár sem er ætlað að halda utan um allar upplýsingar um mannvirki og mannvirkjagerð á öllu landinu. Með nýju umsóknarviðmóti munu gögn skila sér jafnóðum í mannvirkjaskrá sem er lykillinn að betri yfirsýn á húsnæðismarkaði til hagsbóta fyrir stjórnvöld, hagaðila og almenning.