Mygla

Mygla myndar gró sem svífa um í loftinu. Mygla þrífst best í röku umhverfi og er vöxtur hennar háður fjórum þáttum: æti, súrefni, viðunandi hitastigi og vatni.

Lykillinn að því að koma í veg fyrir myglu er að hafa stjórn á raka.

Hvernig þekki ég myglu?

 • Mygla getur verið lík þeirri myglu sem við þekkjum í mat, t.d. brauði eða sultu.
 • Í sumum tilfellum er mygluvöxtur innandyra ekki sýnilegur en skrítin lykt, stundum kölluð saggalykt ætti að gefa vísbendingu um að mygla sé til staðar í rými.
 • Mygla birtist í ýmsum litum eins og brúnum, gráum, svörtum, hvítum, gulum, bleikum, grænum og rauðbrúnum lit.
 • Hægt er að ruglast á myglu og efnaútfellingum, sandmengun, olíusmiti eða tjörulitun en ef leki hefur verið á svæðinu sem um ræðir má reikna með að um myglu sé að ræða.

Hvar birtist mygla helst?

 • Mygla getur t.d. leynst aftan á veggklæðningu, veggfóðri eða panel, bak við flísar, eða undir gólfteppum og púðum.
 • Aðrir hugsanlegir staðir geta verið inni í veggjum í kringum pípulagnir (pípulagnir leka eða mikil rakaþétting), á yfirborði veggja á bak við húsgögn (þar sem raki þéttist, sérstaklega er hætt við því við útveggi), inni í stokkum loftræsikerfa og í þaki (vegna leka í þaki, of lítillar loftunar eða ófullnægjandi einangrunar).
 • Mygla getur einnig komið fram í þvottavélum og ryksugum.

Einkenni mygluofnæmis

Þeir sem hafa ofnæmi fyrir myglu eru með of virkt ónæmiskerfi gagnvart ákveðnum myglugróum og bregðast við þeim eins og ofnæmisvaldi.

Helstu einkenni mygluofnæmis eru:

 • kláði í nefi, munni og vörum
 • hnerri
 • kláði og tárarennsli í augum
 • nefrennsli og nefstífla
 • þurr húð, húðflögnun

Heilsan og mygla

Mygla getur haft ýmis neikvæð áhrif á heilsufar fólks og þarf því að takmarka eins og hægt er að vera í húsnæði eða rými þar sem mygla er. Það getur þó verið erfitt að átta sig á því hvort mygla sé að hafa áhrif á heilsuna frekar en eitthvað annað.

Gott ráð er að nota útilokunaraðferðina og fylgjast með heilsu sinni tengt ákveðnum staðsetningum, t.d. hvort heilsan sé verri um helgar þegar meira er dvalið heima, eða hvort heilsan sé betri þegar dvalið er heima.

Erfitt getur verið að greina nákvæmlega hvað er mygla og hvað ekki, en litur og lykt gefa mikið til kynna. 

Til að finna út hvort ákveðið rými sé hægt að tengja við einkenni er ágætt að velta fyrir sér hvort eitthvað að eftirfarandi eigi við það rými:

 • Hefur verið leki þar nýlega og sýnileg rakaskemmd til staðar?
 • Er óhefðbundin lykt í rýminu?
 • Hafa einhverjar framkvæmdir verið nýlega?
 • Hefur eitthvað verið uppfært nýlega í rýminu, t.d. húsgögn, gólfefni eða nýlega skipt um dýnu svo eitthvað sé nefnt?
 • Eru notuð sterk þvottaefni, þvottaefni eða aðrir sterkir ilmgjafar?

Fræðslumyndbönd um rakaskemmdir og myglu

Hér má finna fræðslumyndbönd um rakaskemmdir og myglu sem framleidd eru af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Smelltu hér til að horfa á myndböndin

Fræðslumyndbönd um rakaskemmdir og myglu

Hér má finna fræðslumyndbönd um rakaskemmdir og myglu sem framleidd eru af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Smelltu hér til að horfa á myndböndin