Hreinsun myglu

Mygla skemmir það sem hún vex á og því lengur sem mygla vex, því meiri skemmdum getur hún valdið. Þegar mygluvandamál er til staðar er því afar mikilvægt að bregðast fljótt við og leita lausna.

Í sumum tilfellum nægir að hreinsa mygluna burt með viðeigandi efnum en sé um stærra vandamál að stríða t.d. myglu á byggingarefnum þá þarf að fara í róttækari aðgerðir.

Þrif á myglu

Mygla og myglugró geta haft neikvæð áhrif á heilsu fólks og er því mikilvægt að þegar grunur um myglu vaknar að loka rýmið af eins og mögulegt er og nota persónuhlífar við þrifin. Best er að dvelja ekki á svæði þar sem grunur er um myglusvepp þar til svæðið hefur verið hreinsað eða tekið burt.

Þrif og hreingerningar eftir myglusvepp þarf að framkvæma vandlega og skipulega. Í sumum tilfellum geta húsráðendur sjálfir átt við mygluna og hreinsað hana burt með sápuvatni og sérstökum efnum sem vinna á vandanum. Til að tryggja að öll mygla hverfi og ekkert sé eftir er þó öruggast að leita til fagaðila. Mikilvægt er að þrífa allt húsnæðið og alla innanstokksmuni vel til að losna við öll myglugró sem dreifast um loftið. Sama má segja um byggingarefni eða aðra hluti sem rakaskemmd eða mygla er í - best er að koma því út á eins einfaldan hátt og mögulegt er, helst vafin inn í plast ef um mikla myglu er að ræða.

Mygla á mismunandi efnum

  • Sé mygla sýnileg má hreinsa hana af hörðu yfirborði með hreinsiefnum, sápu og vatni. Eftir það skal þurrka svæðið vel.
  • Sé myglu í efni sem sýgur í sig vökva, eins og teppum og loftflísum, duga engin ráð og verður að fleygja því öllu. Það má alls ekki mála yfir slíka myglu.
  • Eftir vatnstjón, mikinn raka í rými, augljósan mygluvöxt sem ekki fæst ráðið við er best að leita til fagaðila í verkið. Ýmsir fagaðilar taka að sér að skoða, greina og hreinsa myglu burt.

Fagaðilar og þrif

  • Gott er að fullvissa sig um áður en fagaðili er ráðinn að vera viss um að hann þekki vel til verka, t.d. með því að óska eftir meðmælum eða fá upplýsingar um verkferil þeirra
  • Fagaðilar sem hreinsa burt myglu geta verið verkfræðistofur, fyrirtæki sem sérhæfa sig í þrifum á myglu og iðnaðarmenn og aðrir þjónustuaðilar.