Góð ráð fyrir heilnæmt inniloft

Flestir verja megninu af tíma sínum innandyra og eru því gæði innilofts mikilvæg. Í innilofti geta verið mengandi efni í sem hafa slæm áhrif á heilsu.

Vísbendingar um óheilnæmt inniloft geta til að mynda verið tíðar öndunarfærasýkingar íbúa, þungt loft, mygluvöxtur, saggalykt eða önnur langvarandi lykt og móða eða hélun á rúðum.

Hér eru nokkur góð ráð til að halda góðu innilofti:

  • Lofta í gegnum rými tvisvar á dag,  í u.þ.b. 10 mínútur í senn
  • Loftræsa vel þar sem föt eru þurrkuð
  • Banna reykingar innandyra
  • Þrífa og þurrka reglulega af
  • Koma strax í veg fyrir hvers konar vatnsleka og fjarlægja rakaskemmd byggingarefni
  • Nota ofnæmisprófaðar rúmdýnur, sængur og kodda
  • Lofta vel um þegar framkvæmdir eru gerðar
  • Forðast að kaupa hreinsiefni eða aðrar efnavörur sem innihalda mikil ilmefni, eiturefni eða rokgjörn efni.
  • Tryggja að ofnar/hitun húsnæðis sé í lagi.

 Sterk fylgni er á milli örverumengunar (s.s. bakteríu- og sveppavöxts) og öndunarfærasjúkdóma, ofnæmis, astma og viðbragða frá ónæmiskerfinu.