Leiðbeiningar, lög og reglur
Hér má nálgast mannvirkjalög, nýjustu uppfærslu af byggingarreglugerð, útgefnar leiðbeiningar við byggingarreglugerð og lista yfir drög að nýjum leiðbeiningum eða breytingum á eldra efni.
Algild hönnun og aðgengi fyrir fólk með fötlun í lagalegu umhverfi
Kröfur um aðgengi fyrir alla og jafnan rétt til þátttöku og þjónustu má finna víða í lagaumhverfinu, meðal annars í:
- Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands
- Lög um málefni fólks með fötlun
- Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks
- Skipulagslög og skipulagsreglugerð
- Mannvirkjalög og byggingarreglugerð
- Lög um upplýsingar
- Lög um samgöngur
- O.fl.
Hér má nálgast lög og reglugerð um algilda hönnun
Kröfur algildrar hönnunar má m.a. finna í eftirtöldum köflum byggingarreglugerðarinnar
Í 6. kafla er fjallað um markmið og algilda hönnun og skýrt frá í hvaða mannvirkjum skal hafa algilda hönnun að leiðarljósi. Þá er farið yfir hvaða hópa einstaklinga skal sérstaklega taka tillit til og tryggja að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun bygginga á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda. Sérstaklega er tekið fram að fólk eigi að geta komist inn og út úr byggingum með öruggum hætti, jafnvel við óvenjulegar aðstæður, eins og t.d. við eldsvoða.
Í kaflanum eru kröfur og leiðbeiningar um íbúðahúsnæði, atvinnuhúsnæði, frístundahús og gististaði til útleigu sem og önnur sérhæfð mannvirki. Gerð er grein fyrir hvað þarf að hafa í huga varðandi aðgengi allra að byggingum, þ.m.t. gönguleiðir og bílastæði.
Aðgengi innandyra er stór hluti kaflans og það er m.a. hægt að finna kröfur og leiðbeiningar um umferðaleiðir eins og ganga, stiga, lyftur, handrið og handlista.
Ólíkar kröfur eru gerðar til snyrtinga og baðherbergja eftir því hvort um er að ræða íbúðarhúsnæði eða húsnæði sem ætlað er almenningi og því er hægt að finna kröfur og leiðbeiningar fyrir hvorutveggja í 6. kaflanum.
Í 7. kafla er fjallað um umferðaleiðir utandyra, dvalar- og leiksvæði, opin svæði, lóðir, girðingar ofl. þess háttar.
Í 9. kafla er meðal annars fjallað almennt og sértækt um varnir gegn eldsvoða og flóttaleiðir. Þar er til dæmis að finna sérstakar lausnir til að tryggja öryggi fólks með fötlun í byggingum sem eru á mörgum hæðum og því erfitt að komast út án aðstoðar.
Í 10.kafla er m.a. fjallað um gæði og þægindi innilofts, birtu, lýsingu, raka, mengun og þrif mannvirkja. Þessir þættir eru mikilvægir fyrir alla og því eiga þeir við í samhengi við algilda hönnun sem og annarsstaðar.
Góð hljóðvist er mikilvæg fyrir alla og þá sérstaklega fyrir fólk með heyrnarskerðingu. Í 11.kafla er fjallað um hljóðvist í m.a. íbúðum og atvinnuhúsnæði, þ.m.t. skólum, frístundaheimilum, heilbrigðisstofnunum og dvalarheimilum.
Í 12. kafla er fjallað um öryggi og varnir í víðu samhengi. Meðal annars er fjallað um vörn gegn falli, brunaslysum, sprengingum, innilokun, eitrun, drukknun og slysum á lóð. Einnig er fjallað um innréttingar, búnað, útstandandi byggingarhluta, hreyfanlega hluti o.fl.
Mikill munur er á kröfum varðandi algilda hönnun og aðgengi þegar um er að ræða breytingu á eldra mannvirki annarsvegar og breytta notkun á þegar byggðu mannvirki hinsvegar.
Í stuttu og einfölduðu máli þá liggur munurinn í því að ef verið er að breyta t.d. skrifstofuhúsnæði og það á að vera skrifstofuhúsnæði áfram þá skal eftir fremsta megni reynt að uppfylla kröfur núgildandi reglugerðar varðandi algilda hönnun. Hins vegar ef það er t.d. verið að breyta notkun mannvirkis úr skrifstofubyggingu í hótel, þá þarf að fara eftir og uppfylla allar kröfur gildandi byggingarreglugerðar um algilda hönnun og aðgengi.
Eftirfarandi er greinar byggingarreglugerðar um breytingu á þegar byggðu mannvirki eða breytt notkun:
6.1.5. gr. Breyting á þegar byggðu mannvirki eða breytt notkun.
Við breytta notkun þegar byggðra mannvirkja sem almenningur hefur aðgang að skal tryggja aðgengi í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.
Við breytingu á mannvirki sem byggt er í gildistíð eldri byggingarreglugerða skal almennt byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar, sbr. þó 3. mgr.
Ef sérstökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megin gerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita, getur leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar. Sama gildir um kröfur til bílastæða hreyfihamlaðra í þegar byggðu hverfi. Í slíkum
tilvikum skal hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað er eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki er unnt að uppfylla þau og hvort unnt er með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þessa hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt. Taka skal sérstakt tillit til mannvirkja sem falla undir
ákvæði laga um menningarminjar.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.
8.1.3. Breyting á þegar byggðu mannvirki eða breytt notkun
Við lagfæringu á burðarvirki, breytingu á þegar byggðu mannvirki, viðbyggingu við það eða við breytta notkun þess skal burðarvirkishönnuður staðfesta með undirritun á aðaluppdrátt að burðarþol mannvirkisins sé fullnægjandi. Slík staðfesting skal fela í sér eftirfarandi:
- Við breytta notkun mannvirkis skal burðarvirkishönnuður staðfesta að burðarþol þess fullnægi öllum þeim kröfum sem gerðar eru til burðarþols vegna hinnar nýju notkunar skv. ákvæðum laga um mannvirki, þessarar reglugerðar og þeirra staðla sem hún vísar til.
- Sé minniháttar breyting gerð á þáttum er varða burðarvirki í þegar byggðu mannvirki, þ.e. þegar breyting varðar ekki meginburðarvirki, skal burðarvirkishönnuður staðfesta að burðarþolið eftir breytinguna sé fullnægjandi miðað við kröfur sem giltu þegar mannvirkið var reist og að breytingin hafi ekki leitt til þess að burðarþol mannvirkisins eða einstakra hluta þess sé skert.
- Séu gerðar breytingar eða lagfæringar á þáttum er varða burðarvirki í þegar byggðu mannvirki, þ.e. aðrar en þær sem falla undir b-lið, skal burðarvirkið sem breytt er eða lagfært fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til burðarþols skv. ákvæðum laga um mannvirki, þessarar reglugerðar og þeirra staðla sem hún vísar til.
- Sé byggt við mannvirki, hluti þess eða heild endurnýjuð eða burðarvirki breytt ber hönnuði að staðfesta að burðarvirki hinnar nýju, breyttu eða endurnýjuðu þátta fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til burðarþols vegna þeirrar starfsemi sem fyrirhuguð er í mannvirkinu skv. ákvæðum laga um mannvirki, þessarar reglugerðar og þeirra staðla sem hún vísar til. Jafnframt skal staðfest að breytingin hafi ekki leitt til skerðingar á burðarþoli annarra þátta mannvirkisins.
10.1.2. Breytt notkun þegar byggðra mannvirkja
Við breytta notkun þegar byggðra mannvirkja skal hönnuður staðfesta að uppfyllt séu öll viðeigandi ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar.
12.1.2. Breytt notkun þegar byggðra mannvirkja
Við breytta notkun þegar byggðra mannvirkja skal hönnuður staðfesta að uppfyllt séu öll viðeigandi ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar.
Varði breyting á mannvirki sem byggt er í gildistíð eldri byggingarreglugerða þá þætti sem falla undir þennan hluta reglugerðarinnar gilda ákvæði reglugerðar þessarar um breytinguna.