Lífsferilsgreining (LCA)
Lífsferilsgreining (LCA)
Lífsferilsgreining (LCA)
Lífsferilsgreining (LCA)
Leiðbeiningar LCA
Leiðbeiningarnar veita ráðgjöfum og öðru áhugafólki um byggingariðnaðinn upplýsingar og gagnlega grunnþekkingu á lífsferilsgreiningum (e. life cycle assessment, LCA einnig kallað vistferilsgreiningar) fyrir byggingar. Leiðbeiningarnar gagnast byggingariðnaðinum í að framkvæma lífsferilsgreiningar.
Þannig er stuðlað að markmiðum sem að stjórnvöld hafa sett sér um samdrátt í losun, í samræmi við aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum, sem og aðrar nýjar sjálfbærnikröfur sem stefnt er að því að innleiða í byggingarreglugerð. Litið var til fyrirmynda á norðurlöndunum við gerð þessara leiðbeininga sem eru einnig að innleiða LCA kröfur og sjálfbærnikröfur í sínum byggingarreglugerðum.
Leiðbeiningar
Lífsferilsgreining (e. life cycle assessment, LCA, einnig þekkt sem vistferilsgreining) er stöðluð aðferðafræði sem notuð er til að meta heildstæð umhverfisáhrif vöru eða þjónustu (staðbundin og hnattræn) yfir allan líftímann, með öðrum orðum frá vöggu til grafar. Aðferðafræðin er stöðluð (ÍST EN ISO 14040 og ÍST EN ISO 14044) og skilar greiningin tölulegum niðurstöðum fyrir ólíka flokka umhverfisáhrifa, m.a. kolefnisspor eða losun gróðurhúsalofttegunda (hlýnun jarðar). Með henni eru kortlögð umhverfisáhrif vegna öflunar hráefna, flutninga, framleiðslu, notkunar og úrgangsmeðhöndlunar fyrir viðkomandi vöru eða þjónustu.
Margir umhverfisáhrifaþættir eru skilgreindir í niðurstöðum LCA, sá sem að snýr að losun gróðurhúsategunda og kolefnisspori heitir á ensku Global Warming Potential (GWP).
Með niðurstöðum lífsferilsgreininga er hægt að meta hvar umhverfisáhrif byggingarinnar eru mest. Og hægt er að nota niðurstöður greininganna til að hanna og byggja með minni umhverfisáhrifum.
Í töflunni má sjá yfirlit yfir þá fasa sem eru innleiddir fyrir íslenskar byggingar (ath. að B1, B2, B3, B5 og B7 eru ekki teknir með):
-
Heildstæð LCA greining felur í sér að allir fasar lífsferils séu teknir með, en þar sem að ekki eru til meðaltalstölur eða mikil óvissa fylgir ákveðnum fösum þá er einfaldari nálgun á upphafsstigum innleiðingarinnar að taka þá ekki alla með. Í töflunni hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir þá fasa sem verður krafa um í fyrstu innleiðingu á LCA í íslenskum byggingariðnaði. Um að ræða alla fasa lífsferilsgreininga nema B1, B2, B3, B5 og B7.
Fyrir þá fasa sem ekki eru til upplýsingar um á hönnunarstigi er hægt að nota meðaltalstölur, byggðar á fermetra gildum og eru aðgengilegar hér á síðu HMS Íslensk meðaltalsgildi.
Áætla þarf líftíma byggingarefna og gera ráð fyrir útskipti á líftímanum. Til eru gagnagrunnar sem áætla líftímann, t.d. hér og í skýrslu Level(s) á bls. 29-30, en verið er að vinna í að útbúa almenn gögn yfir líftíma byggingarefna við íslenskar aðstæður.
Skilgreindur líftími greininga (e. reference study period) skal vera 50 ár, sem er í samræmi við öll Norðurlöndin. Þetta viðmið þýðir ekki að viðkomandi mannvirki verði rifið eða hætti starfsemi eftir 50 ár. Heldur er það notað til að auðvelda staðlaðan samanburð og endurspeglar dæmigerðan viðhaldstíma sem inniheldur meðal annars skipti á þaki eða gluggum og endurnýjun á margs konar yfirborðsefnum.
Mælt er með því að nota LCA hugbúnað fyrir lífsferilsgreiningar til að tryggja gæði gagna, rekjanleika og einfalda LCA sérfræðingum og hönnuðum vinnuna. LCA nær yfir framleiðslu byggingarefna, orkunotkunar til rekstrar og úrgangsmeðferðar byggingarefna við lok nýtingartíma þeirra. Fyrir gagnasafn þarf að safna nákvæmum gögnum, þekkja og mæla öll aðföng og framleiðslu sem tengist byggingunni yfir allan lífsferil hennar. Þ.e. safna gögnum um efni, byggingarferla, flutning, rekstur, viðhald, endurnýjun og förgun eða endurvinnslu.
Það er mikilvægt að fylgja þeim kerfismörkum sem kröfur um lífsferilsgreininguna skilgreina. Ef byggingarefni finnst ekki í gagnabankanum sem er verið að nota, þá er hægt að nota annan en gera grein fyrir því við skil á gögnum. Ef EPD blöð fyrir íslensk byggingarefni eru til, þá skal leitast við að nota þau. Hægt er að nálgast upplýsingar um EPD blöð á ýmsum stöðum og einnig er hægt að nota meðaltalsgögn þegar ekki er hægt að nálgast raungögn.
Dæmi um hvar hægt er að finna EPD blöð er að finna undir EPD á Ítarefni | Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (hms.is)
Þegar verið er að nýta sérstök LCA forrit við gerð greininganna þá er verið að setja inn upplýsingar um byggingahlutana og orkunotkun byggingarinnar og forritið sér þá um LCA útreikningana og safnar niðurstöðum í valdar töflur og skýrslu. Það er reiknað yfir allan líftíma byggingarinnar og tekur því til hráefnisöflunar, framleiðslu byggingarefna, orku- og auðlindanotkunar við rekstur og viðhald, auk förgunar og hugsanlega endurvinnslu byggingarhluta og byggingarefna.
Til að fá frekari kennslu í framkvæmd lífsferilsgreininga eru menntastofnanir með námskeið ásamt því að flest forritin sem hægt er að nota við gerð lífsferilsgreiningana veita sérstakar leiðbeiningar. Sjá nánar undir námsefni á Ítarefni | Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (hms.is)
Kolefnisspor er mælikvarði fyrir losun gróðurhúsalofttegunda vegna athafna mannsins. Helstu gróðurhúsalofttegundir sem taldar eru inn í kolefnissporið eru: koltvísýringur (CO2), metan (CH4), hláturgas (N2O), óson (O3), vetnisflúorkolefnis (HFC), perflúorkolefni (PFC) og brennisteinshexaflúoríð (SF6). Þessar lofttegundir hafa mismikil áhrif á hlýnun jarðar. Til að einfalda útreikninga og umfjöllun um losun gróðurhúsalofttegunda er því settur fram einn mælikvarði sem kallaður er kolefnisspor, gefið upp í tonnum eða kílóum koltvísýringsígilda, skammstafað t CO2-ígilda eða kg CO2-ígilda.
Almenn krafa er gerð um rekjanleika gagna þannig að hægt sé að sjá úr hvaða gagnabanka gögnin koma, hvort sem að notað hafi verið EPD blað, útgefin meðaltöl fyrir Ísland eða aðrir gagnabankar.
Meðaltalsgögn HMS: Íslensk meðaltalsgildi | Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (hms.is)
Í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi hafa sérstakir gagnabankar verið gerðir aðgengilegir þar sem hægt er að nálgast meðaltöl fyrir framleiðslu valinna byggingarefna, orkunotkun o.fl. Þegar stuðst er við almenn gögn í útreikningum fyrir íslenskar byggingar og ekki liggja fyrir aðgengilegar séríslenskar tölur, þá skal styðjast við aðra gagnabanka og athuga að gögnin séu rekjanleg.
Sjá yfirlit í eftirfarandi töflu yfir þá byggingarhluta sem skulu vera innifaldir í LCA greiningu íslenskra bygginga. Í stuttu máli eru það allir helstu byggingarhlutar og tæknikerfi sem þarf að skila upplýsingum um.
Notast skal við hönnunargögn á borð við magnskrár og módel sem að hafa nú þegar í flestum tilvikum þær upplýsingar sem þurfa að liggja fyrir. Fyrir einstaka byggingarhluta þurfa að liggja fyrir upplýsingar um byggingarefni og magn þeirra þannig að hægt sé að vinna lífsferilsgreiningu.
Í þeim frávikum þar sem að byggingarhlutar hafa ekki verið skilgreindir í útboði og/eða hönnunargögnum, en vitað er að verði hluti að fullfrágenginni byggingu, er lagt til að þeir verði áætlaðir með almennum bakgrunnsgögnum vegna lífsferilsgreininga á hönnunarstigi, en upplýsingar síðan uppfærðar á lokastigi.
Til þess að stuðla að aukinni endurnotkun á nothæfum byggingarefnum þá er endurnotkun á byggingarefnum skráð án losunar eða 0 kg CO2-íg/m2/ári, að því gefnu að fyrri notkun byggingarefnisins hafi verið á Íslandi. Flutningar (A4) og byggingarframkvæmdir (A5) yrðu reiknuð með sama hætti og ef um ný efni væri að ræða.
Ítrekað skal að hér er ekki átt við endurunnið efni, heldur endurnotkun í sömu eða svipaðri notkun, t.d. endurnotkun á stálbitum sem fluttir eru frá einum niðurrifstað og nýttir í öðru mannvirki.