Sveitarfélög - vistvænar framkvæmdir

Hjá nokkrum sveitarfélögum má finna dæmi um sérstaka hvata og áherslur á vistvænni framkvæmdir. Ýmis bæjarfélög á höfuðborgarsvæðinu eins og Hafnafjörður, Garðabær, Kópavogur og Reykjavík hafa tekið fyrsta skrefið í vistvænum framkvæmdum.

Dæmi um vistvænar áherslur sveitarfélaga

  • Vistvænar áherslur má finna víða í sóknaráætlunum landshluta, sem eru stefnumótandi áætlanir sem taka til starfssvæða landshlutasamtaka sveitarfélaga. Í þeim koma fram stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Þar er mælt fyrir um svæðisbundnar áherslur sem taka mið af meginmarkmiðum byggðaáætlunar, landsskipulagsstefnu, skipulagsáætlunum, menningarstefnu og, eftir atvikum, annarri opinberri stefnumótun. Í sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024 er til að mynda lögð áhersla á vistvænni uppbyggingu og skipulag, sem endurspeglast til dæmis í vilja til að bæta úrgangsmál og undirbúa hvata fyrir byggingageirann og arkitekta til að stuðla að umhverfisvænum lausnum.
  • Vorið 2019 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar aðgerðir sem eiga að stuðla að aukinni sjálfbærni í skipulags- og byggingarmálum í sveitarfélaginu og gera það að aðlaðandi stað fyrir vistvænar byggingar. Til dæmis er veittur 20-30% afsláttur af lóðarverði vegna nýbyggingar sem hlýtur umhverfisvottun á borð við Svansvottun eða BREEAM vottun. Þá er gerð almenn krafa um að 20% byggingarefna í nýframkvæmdum hafi umhverfisvottun auk þess sem Hafnarfjarðarbær hyggst móta sér stefnu um vottun allra nýbygginga á vegum sveitarfélagsins.
  • Þá má líta til Urriðaholts í Garðabæ. Þar er verið að reisa fyrsta hverfið hér á landi sem byggist á skipulagi sem hlotið hefur umhverfisvottunarkerfi BREEAM Communities. Þá má geta þess að í því hverfi eru bæði fyrsta íslenska íbúðahúsið og fyrsta íslenska fjölbýlishúsið sem hlotið hafa Svansvottun.
  • Einnig má nefna hér að Kópavogsbær reisir nú nýtt húsnæði fyrir Kársnesskóla, sem á að verða fyrsti Svansvottaði skólinn á landinu.
  • Í Reykjavík má jafnframt finna fjöldamörg verkefni af svipuðum meiði en samkvæmt greinargerð með fjárhagsáætlun borgarinnar og fimm ára áætlun fyrir árin 2019-2023 er ráðgert að á því tímabili verði grænar fjárfestingar að lágmarki 25% af heildarfjárfestingum borgarinnar (eða um 18,8 milljarðar króna). Er þeim ætlað að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með vistvænum byggingum, orkuskiptum í samgöngum og grænum vexti í samræmi við umhverfis- og auðlindastefnu Reykjavíkurborgar.

    Að sama skapi hefur Reykjavíkurborg sett sér umgjörð um græna fjármögnun vegna útgáfu grænna skuldabréfa, en meðal fjárfestinga sem gætu fallið undir slíka fjármögnun er uppbygging Borgarlínu, lagning hjólreiðastíga og göngustíga, LED væðing götulýsingar, hleðslustöðvar fyrir rafbíla og fleira sem sparar orku og dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda.

    Þá má nefna að borgin vinnur nú að nýju hverfisskipulagi Reykjavíkur en markmiðið er meðal annars að gera rótgróin hverfi borgarinnar vistvænni og sjálfbærari. Í sama anda er lögð áhersla á vistvæna nálgun við uppbyggingu Vogabyggðar í Reykjavík og hönnun grænna þróunarlóða í Gufunesi og við Sævarhöfða.

    Að lokum má geta þess að í júní 2020 kynnti borgarstjóri verkefnið Græna planið, sem felst í aðgerðum til að bregðast við efnshagssamdrætti í kjölfar kórónaveirufaraldursins, en tryggja á að þær verði í samræmi við framtíðarsýn um kolefnishlutlaust borgarsamfélag og loftslagsmarkmið borgarinnar.

Allar ábendingar um vistvænar áherslur sveitarfélaga eru vel þegnar. Þær má senda á netfangið thora.thorgeirsdottir@hms.is

Allar ábendingar um vistvænar áherslur sveitarfélaga eru vel þegnar. Þær má senda á netfangið thora.thorgeirsdottir@hms.is