
Spurt og svarað um leiguskrá
Hér er hægt að nálgast svör við algengum spurningum um leiguskrá HMS. Einnig er hægt að hafa samband við okkur á opnunartíma í gegnum síma 440-6400, eða með því að senda tölvupóst á netfangið leiguskra[hjá]hms.is.
- Leiguskrá er hluti af Húsnæðisgrunni HMS sem heldur utan um gögn og upplýsingar um húsnæðismál. Leiguskránni er ætlað að halda utan um leigusamninga og breytingar á leigufjárhæð svo og afskráningu leigusamninga samkvæmt húsaleigulögum.
- HMS vinnur þá að stefnumótun, annast greiningar, rannsóknir og útgáfu upplýsinga um húsnæðismarkaðinn skv. 86. gr. húsaleigulaga ásamt Innviðaráðuneytinu.
- HMS safnar gögnum í leiguskrárhluta Húsnæðisgrunns, við það verður til gagnasafn í rauntíma um stöðu og þróun leigumarkaðar.
Með rafrænni skráningu leigusamnings minnkar umstang aðila leigusamnings til muna þar sem notast er t.d. við rafræna undirritun, vottar eru óþarfir og ekki er lengur gerð krafa um þinglýsingu fyrir þá sem ætla sækja um húsnæðisbætur. Aukið öryggi er á skráningunni þar sem færri hendur koma að henni og hún er umhverfisvænni með minni pappírsnotkun.
Þeir aðilar sem HMS er kunnugt um að bjóði upp á rafræna skráningu leigusamnings eru í stafrófsröð:
Ef það eru fleiri aðilar sem bjóða upp á rafræna skráningu leigusamninga má hafa samband við HMS í gegnum netfangið leiguskra@hms.is og við munum hafa samband eins fljótt og auðið er.
- Mikilvægt er að hefja vinnu við rafræna skráningu leigusamninga sem fyrst svo ekki komi til falls á húsnæðisbótum, þar sem húsnæðisbætur eru háðar skráningunni.
- Skv. 5. gr. húsaleigulaga er leigusala sem hefur atvinnu af útleigu íbúðarhúsnæðis skv. tekjuskattslögum (sá sem er með fleiri en tvær íbúðir til útleigu) gert skylt að skrá húsaleigusamning um íbúðarhúsnæði í Húsnæðisgrunn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eigi síðar en 30 dögum frá undirritun samningsins.
- Hafi leigusali ekki sinnt skyldu sinni um skráningu við afhendingu hins leigða er leigjanda heimilt að skrá leigusamning í húsnæðisgrunn HMS.
- Frá og með 1.janúar 2024 verðu HMS heimilt að leggja stjórnvaldssekt á hvern þann sem brýtur
gegn skráningarskyldu þessari. - Allir leigusalar, óháð skilgreiningu skv. tekjuskattslögunum, geta skráð í Húsnæðisgrunn HMS og lagt þannig sitt að mörkum við öflun gagna um rauntíma leigumarkað.
Í 5. gr. húsaleigulaga segir: „Leigusamningar sem skráðir hafa verið í húsnæðisgrunn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eru undanþegnir rétti almennings til aðgangs að gögnum samkvæmt ákvæði 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012“.
HMS hefur innleitt stjórnkerfi upplýsingaöryggis sem byggir á staðlinum ISO/IEC 27001:2013 og fjallar um þær kröfur sem lagðar eru til grundvallar vottun á upplýsingaöryggi. Stjórnkerfið er vottað af BSI (British Standards Institution), skírteini nr. IS 587789. Þá er HMS umhugað um persónuvernd í starfsemi sinni og leggur áherslu á lögmæta, sanngjarna og gagnsæja meðferð persónuupplýsinga. Hjá HMS skal unnið með eins lítið af persónuupplýsingum og þörf krefur á grundvelli hins lögbundna hlutverks hans.
Í ljósi þessa verða engar persónugreinanlegar upplýsingar aðgengilegar úr húsnæðisgrunni HMS. Meðal þeirra upplýsinga sem HMS mun birta opinberlega eru:
- Meðaltal greiddrar leigu
- Meðal fermetraverð leigu
- Flatarmál (oft annað en í fasteignaskrá því það er verið að leigja út hluta af íbúð)
- Fjöldi virkra leigusamninga (og það sé haldið utan um söguna)
- Vísitala leiguverðs (byggt á verði og flatarmáli ásamt breytum úr fasteignaskrá)
- Framlengingu á eldri leigusamningi sem ekki hefur verið skráður rafrænt þarf að skrá rafrænt sem nýjan samning.
- Ef eldri samningurinn hefur verið skráður rafrænt er hægt að framlengja hann með auðveldum hætti hjá skráningaraðila.