Próf­an­ir

Próf­an­ir

Prófanir á byggingarvörum eru framkvæmdar á ýmsum stöðum hér á landi, m.a. hjá Tæknisetri, sem var stofnað formlega af stjórnvöldum um mitt ár 2021.

Meðal prófana sem framkvæmdar eru hjá Tæknisetri eru prófanir á eiginleikum glugga en gluggar á Íslandi þurfa að standast meira veðurálag en gengur og gerist í nágrannalöndum. Í 8.2.4. og 8.2.6. gr. byggingarreglugerðar eru til að mynda settar fram sértækar kröfur sem varða hámarksformbreytingu gluggapósta og slagregnsþéttleika glugga.

Tæknisetur er ekki tilkynntur aðili (e. Notified Body) en til að mega CE-merkja glugga þarf framleiðandi að láta prófa sína vöru hjá tilkynntum aðila. Ein af forsendum tilkynningar er faggilding og það hefur Tæknisetur ekki heldur. Íslenskir gluggaframleiðendur hafa því ekki getað látið prófa sínar vörur hér á landi í þeim tilgangi að CE-merkja þær eins og kröfur segja til um.

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að uppfærslu á gluggaprófunarbúnaði Tækniseturs í samræmi við leiðbeiningar frá Teknologisk Institut í Danmörku (DTI) en í framhaldinu mun DTI, sem er tilkynntur aðili, koma að þeim gluggaprófunum sem framkvæmdar verða hjá Tæknisetri og íslenskir framleiðendur loksins geta framkvæmt nauðsynlegar prófanir hérlendis. Gert er ráð fyrir að uppfærslu á búnaði verði lokið á þessu ári og úttekt DTI fara fram strax á nýju ári. Í kjölfarið munu faggiltar prófanir á gluggum hefjast. 

Mikilvægt er að halda áfram að styðja við faggiltar prófanir og eru gluggaprófanir einungis fyrsta skrefið í þá átt.

Gluggaprófunarklefi sem er staðsettur hjá Tæknisetri

Gluggaprófunarklefi sem er staðsettur hjá Tæknisetri.