Eftirlit með neysluveitum í rekstri
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ábyrgist að reglubundið eftirlit með veitum í rekstri, sé með þeirri tíðni sem ákveðin er í gr. 6.5 og gr. 6.6 í reglugerð um raforkuvirki.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun beitir þeirri aðferð við skoðun á neysluveitum í rekstri að velja ákveðna gerð neysluveitna og kanna ástand þeirra með úrtaksskoðunum.
Óháðar faggiltar skoðunarstofur framkvæma skoðanir á neysluveitum í umboði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar samkvæmt skilgreindum verklags- og skoðunarreglum.
Markmiðið með fyrrgreindum skoðunum var að fá sem gleggsta mynd af ástandi raflagna og -búnaðar í ákveðnum gerðum neysluveitna svo unnt væri að koma á framfæri upplýsingum til eigenda og umráðamanna þeirra um það sem betur má fara. Í öllum tilvikum er rafmagnstafla viðkomandi veitu skoðuð ásamt raflögnum og rafbúnaði að hluta eða öllu leyti. Í rafmagnstöflum eru könnuð atriði eins og varnaraðferðir, merkingar töflubúnaðar, töflutaugar, hlífar o.fl. en við skoðun raflagna og búnaðar voru tenglar, rofar, spennujöfnun, strenglagnir, lausataugar o.þ.h. kannað.
Athugasemdir sem fram koma við skoðanir eru flokkaðar í þrjá áhættuflokka eftir vægi:
- flokkur: Ábending um minniháttar galla. Frágangur, efni eða búnaður er ekki samkvæmt reglum.
- flokkur: Frávik frá öryggisákvæðum sem talið er geta valdið snerti- eða brunahættu.
- flokkur: Alvarlegt frávik frá öryggisákvæðum sem talið er valda bráðri snerti- eða brunahættu.
Eigendur eða umráðamenn þeirra veitna sem skoðaðar eru fá í öllum tilfellum afrit af skoðunarskýrslu um leið og hún liggur fyrir, þar sem athugasemdir sem fram komu í hlutaðeigandi skoðun eru listaðar, alvarleiki þeirra (áhættuflokkur) útskýrður og frestur til úrbóta tilgreindur.
Niðurstöðurnar nýtast Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til að stýra áherslum við gerð kynningar- og fræðsluefnis.