Hættu- og neyðarástand

Tilgangur og umfang

Að tryggja skoðun á öryggisstjórnunarkerfi rafveitu vegna viðbragða við mögulegu hættu- og neyðarástandi í samræmi við Reglugerð um raforkuvirki (rur) með tilliti til:

 • Skilgreinds verklags og
 • skráninga og rannsókna.

Með hættu- og neyðarástandi er átt við ástand sem leitt getur til slysa á fólki eða eignatjóns og stafar frá veitukerfinu. Tilvik hættu- og neyðarástands verða þegar slíkt ástand skapast á tilteknum stað á tilteknum tíma og varir tilvikið uns ástandinu lýkur. Ef ekki er vitað hvenær ástandið hófst skal miða við hvenær það uppgötvaðist.

Lýsing

Skilgreining og flokkun: 
Hættu- og neyðarástand flokkast í þrjú stig: 1. stig - Varasamt ástand, 2. stig - Hættutilvik og 3. stig - Óhapp.

 

Varasamt ástand:
Ástand sem gæti leitt til óhapps ef ekki er gripið til aðgerða, en enn hefur enginn atburður átt sér stað.

Hættutilvik:

Atburður sem hefði við aðrar kringumstæður getað leitt til slysa á fólki eða eignatjóns.

Óhapp:
Atburður sem leiðir til slysa á fólki eða eignatjóns.

Dæmi til skýringar:

Eftirfarandi dæmi eru eingöngu til frekari skýringa á því hvað átt er við með hættu- og neyðarástandi, en eru alls ekki tæmandi upptalning á þeim atvikum sem upp geta komið :

 • Útivirki stendur opið eða er óvarið vegna snjólags. Hver sem er getur gengið inn og að spennuhafa búnaði.
 • Lágspennustrengur grafinn sundur af verktaka. Tveir menn frá rafveitu koma til að líta á aðstæður. Báðir fara upp í stöð til að rjúfa straum og skilja strenginn eftir óvarinn og opinn.
 • Sumarhús brennur. Beiðni berst frá lögreglu um að taka straum af heimtaug.
 • Tveir vinnuflokkar eru að vinnu. Flokkur A er við prófanir á rafbúnaði í nýjum rofaútgangi. Flokkur B er við skoðun á línu sem tengd er útganginum. Línan er ekki í rekstri og á að vera spennulaus. Vegna prófunarvinnunnar er línan spennusett.
 • Eldur við/í (há)spennuvirki og/eða í straumhafa búnaði.
 • Skemmdir á spennuhafa búnaði, t.d. loftlína laus af staur og í hættulega hæð, staur brotinn eða laus og hangir í leiðurum.
 • Snjór hefur safnast undir loftlínu þannig að hættulega lágt er undir leiðara.

Skilgreint verklag:

Til skulu vera skjalfestar verklagsreglur sem lýsa hvernig bregðast skuli við hættu- og neyðarástandi sem upp getur komið. Fram þarf að koma hvaða aðilar bera ábyrgð á viðbrögðum, auk eftirtalinna atriða: Lýsing vinnuferla og skilgreind viðbrögð, stjórnun aðgengis, trygging straumrofs, beiðni um aðstoð lögreglu, slökkviliðs, lækna- og sjúkraliðs, upplýsingamiðlun, skráning og tilkynning atviks, rannsókn, mat og úrbætur.

Skráning og rannsókn:

Öll óhöpp, hættutilvik og varasamt ástand skal skrá hvort sem það varðar slys á fólki eða eignatjón. Gögn þurfa að sýna að viðeigandi aðilum hafi verið tilkynnt um málið og að það hafi verið rannsakað. Ef ástæða hefur verið talin til úrbóta (lagfæringa) skal því hafa verið fylgt eftir. Sjá grein 5.2 í rur, verklagsreglu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar VLR 3.031 gr. 8 og 9 og verklýsingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar VL 3.029.

Tilvísanir

Eyðublöð:

 • EYB 3.216  - Skoðun á öryggisstjórnunarkerfi rafveitna, iðjuvera og einkarafstöðva.
 • EYB 3.230  - Skýrsla um hættu- og neyðarástand