Rafföng
Öll rafföng sem markaðssett eru á Íslandi skulu uppfylla ákvæði um öryggi sem fram koma í reglugerð um raforkuvirki, nr. 678/2009 (7. gr. ásamt viðaukum) og einnig ákvæði um rafsegulsamhæfi sem sett eru fram í reglugerð um sama efni, nr. 303/2018.
Ofangreindar reglugerðir eru annars vegar byggðar á lágspennutilskipun Evrópusambandsins, 2014/35/ESB (LVD) og hins vegar tilskipun Evrópusambandsins um rafsegulsamhæfi 2014/30/ESB (EMC). Sömu reglur gilda því að mestu á Evrópska efnahagssvæðinu (EES), sem samanstendur af Evrópusambandinu (ESB), Íslandi, Liechtenstein og Noregi, um þau rafföng sem falla undir tilskipanir ESB og staðfestar hafa verið af sameiginlegu EES-nefndinni.
Framleiðendur og/eða innflytjendur bera ábyrgð á að ákvæðum ofangreindra reglugerða sé fylgt. Faggiltar skoðunarstofur í umboði rafmagnsöryggissviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sjá með virku markaðseftirliti til þess að rafföng uppfylli þau skilyrði sem sett eru í reglugerðunum. Markaðseftirlitið fer fram í samræmi við verklagsreglur og skoðunarhandbók Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Í upplýsingaritinu „Reglur um markaðssetningu raffanga“ er fyrst og fremst fjallað um rafföng sem falla undir ofangreindar tilskipanir ESB (LVD og EMC). Ritið er til leiðbeiningar framleiðendum, innflytjendum og öðrum söluaðilum, það er hvorki tæmandi né lagalega bindandi.
Ekki eru samræmdar reglur á EES um klær og tengla til heimilis- og ámóta nota – sjá nánar reglur um klær og tengla á Íslandi.
*) LVD (Low Voltage Directive) Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/35/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða fram á markaði rafföng sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka.
**) EMC (Electro Magnetic Compatibility) Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi rafsegulsamhæfi.
Nánari upplýsingar, reglugerðir, staðlar og tilskipanir:
- Reglur um markaðssetningu raffanga
- Reglugerð um raforkuvirki nr. 678/2009
- Reglugerð nr. 303/2018 um rafsegulsamhæfi
- Lágspennutilskipun, LVD, um öryggi raffanga ásamt ítarefni
- EMC-tilskipun um rafsegulsamhæfi ásamt ítarefni
- Samhæfðir staðlar, öryggi raffanga
- Samhæfðir staðlar, rafsegulsamhæfi
- ESB-samræmisyfirlýsing (dæmi á íslensku)
- ESB-samræmisyfirlýsing (dæmi á ensku)
- Verklagsreglur, markaðseftirlit raffanga
- Skoðunarhandbók, markaðseftirlit raffanga
- Reglur um klær og tengla
- Birting skýrslna um niðurstöður markaðseftirlits raffanga