Rafmagnspróf

Hér að neðan er hægt að taka sjálfspróf í rafmagnsöryggis. Svarið eftirfarandi spurningum samviskusamlega eftir því sem þið teljið eiga við hjá ykkur.

Ef þið svarið öllum spurningum neitandi bendir það til þess að ágætt ástand sé á raflögnum og rafbúnaði á heimili ykkar.

Eftir því sem já-unum fjölgar er meiri ástæða til að sýna aðgát og fá löggiltan rafverktaka til að gera úttekt á heimilinu.

Eitt eða fleiri já í hverjum hluta bendir til þess að raflagnir á heimilinu séu ekki eins og þær eiga að vera og tafarlaust þurfi að kalla til löggiltan rafverktaka.

Rafmagnstafla

Er rafmagnstaflan gömul trétafla?
Sést í bera víra eða tengingar í töflunni?
Er búnaður töflunnar skemmdur eða brotinn?
Springa öryggin oft eða slá út?
Eru lélegar eða engar merkingar í töflunni?
Er rafmagnstaflan án lekastraumsrofa?

Lekastraumsrofinn (bilunarstraumsrofinn)

Slær rofinn stundum út án sýnilegrar ástæðu?
Er áfram rafmagn á íbúðinni eftir að þú hefur ýtt á prófhnappinn á lekastraumsrofanum?
Hefur orðið bilun í rafkerfi eða raftæki en lekastraumsrofinn ekki slegið út?

Innstungur (tenglar)

Eru sumar innstungur á heimilinu ójarðtengdar?
Eru brotin lok á innstungum?
Eru mörg raftæki tengd í eina innstungu?
Eru klær "lausar" í einhverjum innstungum?
Eru innstungur illa festar á vegg eða í veggdósir?

Ljósarofar

Eru brotin lok eða brotnir takkar á rofum?
Ber á sambandsleysi í ljósarofum?
Eru einhverjir rofar illa festir?
Eru einhverjir rofar heitir?

Leiðslur (lausataugar)

Eru leiðslur í gangvegi eða undir gólfteppum?
Liggja leiðslur þar sem þær geta skemmst, til dæmis milli stafs og hurðar?
Er gat eða sjáanlegt slit á leiðslum?
Er þannig gengið frá klóm að sést í litaða einangrun víranna í leiðslunni?
Eru tæki sem eiga að vera jarðtengd í ójarðtengdum innstungum?
Liggja leiðslur í haug eða upprúllaðar þegar þær eru í notkun?

Ljós og önnur raftæki

Eru sterkari perur í ljósum en uppgefinn hámarksstyrkur segir til um?
Eru sterk ljós (til dæmis kastarar) staðsett nálægt brennanlegum efnum?
Springa perur oftar í einu ljósastæði en öðru?
Eru loftljós illa uppsett og hanga á tengingum?

Ef þið svarið öllum spurningum neitandi bendir það til þess að ágætt ástand sé á raflögnum og rafbúnaði á heimili ykkar.

Eftir því sem já-unum fjölgar er meiri ástæða til að sýna aðgát og fá löggiltan rafverktaka til að gera úttekt á heimilinu.

Eitt eða fleiri já í hverjum hluta bendir til þess að raflagnir á heimilinu séu ekki eins og þær eiga að vera og tafarlaust þurfi að kalla til löggiltan rafverktaka.