Hvað er lífsferilsgreining (LCA)?

Lífsferilsgreining (eða vistferilsgreining, e. life cycle assessment, LCA) er stöðluð aðferðafræði sem notuð er til að meta heildstæð umhverfisáhrif vöru eða þjónustu (staðbundin og hnattræn) yfir allan líftímann, með öðrum orðum frá vöggu til grafar.

Með henni eru kortlögð umhverfisáhrif vegna öflunar hráefna, flutninga, framleiðslu, notkunar og úrgangsmeðhöndlunar fyrir viðkomandi vöru eða þjónustu.

Kolefnisspor er mælikvarði fyrir losun gróðurhúsalofttegunda vegna athafna mannsins. Helstu gróðurhúsalofttegundir sem taldar eru inn í kolefnissporið eru: koltvísýringur (CO2), metan (CH4), hláturgas (N2O), óson (O3), vetnisflúorkolefnis (HFC), perflúorkolefni (PFC) og brennisteinshexaflúoríð (SF6). Þessar lofttegundir hafa mismikil áhrif á hlýnun jarðar. Til að einfalda útreikninga og umfjöllun um losun gróðurhúsalofttegunda er því settur fram einn mælikvarði sem kallaður er kolefnisspor, gefið upp í tonnum eða kílóum koltvísýringsígilda, skammstafað t eða kg CO2-ígilda.