Samstarfsnefnd Heyrnarskertra á Norðurlöndum (NHS) hafa gefið út handbók um tónmöskva. Um það bil fjórar milljónir einstaklinga á Norðurlöndum eru verulega heyrnarskertir. Fyrir þessa einstaklinga er tónmöskvinn mikilvægt hjálpartæki sem gerir þeim kleift að taka þátt í samfélaginu, við vinnu, á menningarviðburðum, í skóla, stjórnmálum, við tómstundaiðkun o.fl. Yfir 90% allra heyrnartækja sem dreift er í Skandinavíu hafa T-stillingu til að taka á móti merkjum frá tónmöskvum. Í þessum tilgangi eru ekki til aðrar lausnir sem eru jafn aðgengilegar og tónmöskvar. NHS hefur útbúið handbók um tónmöskva sem ætluð er þeim starfsstéttum sem sjá um að skipuleggja, panta, setja saman og sjá um viðhald á tónmöskvum í almennu rými, eins og arkitektum, byggingameisturum, rafvirkjum og öðru tæknistarfsfólki. Handbókin veitir almennar upplýsingar um tónmöskva, hvað þarf að hafa í huga við skipulagningu og uppsetningu á tónmöskvum, tæknilegar upplýsingar og hvernig unnt er að leysa ýmis vandamál sem upp geta komið.
Handbók NHS um tónmöskva.