Vistvænar áherslur í byggingarreglugerð

Í 15. kafla byggingarreglugerðar nr. 112/2012, er fjallað um verndun náttúrufars og varnir gegn mengun.

Þar er m.a. mælst til að gerð sé lífsferilsgreining vegna nýrra mannvirkja, viðbygginga, endurgerðar mannvirkja og meiriháttar viðhalds þeirra.

Ennfremur kemur þar fram að til mannvirkjagerðar skuli eftir því sem aðstæður leyfa velja endurunnið og endurnýtanlegt byggingarefni og að úrgangi skuli haldið í lágmarki.

Í 15.2.2. gr. segir að áður en byggingarleyfisskyldar framkvæmdir hefjist skuli eigandi skila til leyfisveitanda áætlun um meðhöndlun byggingar- og niðurrifsúrgangs þar sem fram komi upplýsingar um skipulagningu, skráningu, flokkun, endurnýtingu og förgun.

Frá og með 1. janúar 2020 skal minnst 70% af byggingar- og niðurrifsúrgangi vera flokkaður með þeim hætti að hann sé hæfur til endurnýtingar áður en honum er skilað á viðurkennda móttökustöð (þetta hlutfall var 60% frá og með 1. janúar 2015), sbr. 15.2.4. gr.

Þá er kveðið á um það í 15.2.3. gr. að gera skuli lista yfir öll hættuleg eða mengandi efni í byggingum ásamt tilheyrandi upplýsingum.

Ítarlegra yfirlit yfir vistvæn ákvæði í byggingarreglugerð má sjá í viðauka í skýrslu Grænnar byggðar, Umhverfisvæn bygging í íslensku samhengi.