Umsókn samþykkt - næstu skref
Þegar HMS hefur lokið mati á umsóknum um stofnframlag ríkisins tilkynnir stofnunin hverjum umsækjanda skriflega um afgreiðslu á umsóknum þeirra.
Í tilkynningu um samþykki umsóknar koma m.a. fram upplýsingar um fjárhæð samþykkts stofnframlags og e.a. sérstök skilyrði fyrir úthlutun. Ef umsókn um stofnframlag er hins vegar synjað, geymir tilkynningin leiðbeiningar um kæruheimild og um rétt umsækjanda til frekari rökstuðnings fyrir ákvörðuninni.
Hér má finna upplýsingar um næstu skref eftir að umsókn um stofnframlag hefur verið samþykkt:
Í framhaldi af úthlutun gengur HMS frá skriflegum samningi við stofnframlagshafa um stofnframlag ríkisins. Í slíkum samningi er á um helstu réttindi og skyldur sem leiðir af lögum nr. 52/2016.
Áður en gengið er frá samningi um stofnframlag þarf stofnframlagshafi að hafa skilað inn upplýsingum, sem eru mismunandi eftir því hvort um kaup eða byggingu almennra íbúða er að ræða og að hafa uppfyllt sérstök skilyrði fyrir úthlutun stofnframlagsins ef slík skilyrði voru tilgreind í tilkynningu um samþykki umsóknar. Upplýsingarnar sem stofnframlagshafi þarf að skila eru eftirfarandi:
- Ef um er að ræða byggingu almennra íbúða þá þarf að liggja fyrir landnúmer/fasteignarnúmer lóðar þar sem íbúðirnar eiga að rísa, sbr. lóðarúthlutun.
- Ef um er að ræða fyrirhuguð kaup á íbúðum þá telst umsókn ekki endanlega samþykkt fyrr en stofnframlagshafi hefur skilað kauptilboði/kaupsamningi til HMS, sem metur hvort kaupin uppfylla skilyrði laga um almennar íbúðir. Hér fer m.a. fram mat á hagkvæmni íbúða að því er varðar kaupverð og stærð þeirra m.t.t. herbergjafjölda, staðsetningar, ástands og þarfa notendahópsins. Þá er einnig lagt mat á endurbótakostnað og raunkostnað við kaup íbúðar, ef gert hefur verið ráð fyrir slíkum kostnaðarliðum í stofnvirði íbúðar skv. umsókn. Þegar þinglýstur kaupsamningur liggur fyrir er gengið frá samningi um stofnframlag vegna kaupa á umræddri íbúð.
Þegar allar upplýsingar liggja fyrir og öll skilyrði uppfyllt fær stofnframlagshafi send drög að samningi og er honum þá gefinn kostur á að lesa samningsdrögin yfir og koma með athugasemdir ef einhverjar eru. Endanleg útgáfa af samningi er svo send stofnframlagshafa til undirskriftar ásamt kvöð sem HMS þinglýsir á allar almennar íbúðir í samræmi við lög nr. 52/2016 um bann við sölu og veðsetningu almennra íbúða og um notkunarskilmála .
Meginreglan við útgreiðslu stofnframlags ríkisins er sú að það skalgreitt út í tvennu lagi, helmingur þess skal greiddur út við samþykki umsóknar, þ.e. eftir að samningur um stofnframlagið hefur verið undirritaður og seinni helmingur þegar almenn íbúð hefur verið leigð út, ef um kaup er að ræða, eða þegar vottorð vegna öryggisúttektar íbúðar liggur fyrir, sé um byggingu almennrar íbúðar að ræða. Ef um byggingu almennra íbúða er að ræða fer jafnframt frammat á raunframkvæmdáður en seinni helmingur stofnframlags er greiddur út, sbr. nánari umfjöllun hér fyrir neðan.
Í ákveðnum tilvikum er heimilt að greiða 75% stofnframlagsins í fyrri útgreiðslu, en til þess að svo megi verða þarf stofnframlagshafi að uppfylla ákveðin skilyrði sem kveðið er á um í 17. gr. reglugerðar nr. 183/2020.
Ef um byggingu almennra íbúða er að ræða byggir útgreiðsla seinni hluta stofnframlags á mati á raunframkvæmd þar sem skoðað er hvort fjöldi íbúða og fjöldi brúttófermetra rýma byggingar í lokunarflokki A og B skv. ÍST50 sé í samræmi við samþykkta umsókn. Ef í ljós kemur að íbúðir eða fermetrar séu færri en samþykkt umsókn gerði ráð fyrir er stofnvirði leiðrétt í samræmi við raunverulegt byggingarmagn og síðari hluti stofnframlags greiddur út miðað við það, að teknu tilliti til frádráttar vegna fyrri útgreiðslu stofnframlagsins.
Mat á raunframkvæmd hefst þegar stofnframlagshafi hefur skilað eftirfarandi gögnum:
I) Samþykktar teikningar og skráningartafla fyrir umrætt hús. Bent er á að hentugast er að fá skráningartöfluna á Excel formi en það auðveldar yfirferð og hraðar afgreiðslu á mati.
II) Vottorð um öryggisúttekt eða vottorð um lokaúttekt fyrir bygginguna.
III) Staðfesting á greiddum fjárhæðum opinberra gjalda vegna framkvæmdarinnar s.s. vegna lóðar og tengdra gjalda.
Gögnin skal senda á netfangið stofnframlag@hms.is með vísan í málsnúmer hinnar samþykktu umsóknar sem tilgreint er í horni tilkynningar um samþykki umsóknar og í samningi um stofnframlag. Jafnframt er bent á að stofnframlagshafi getur byrjað á að senda inn gögn skv. lið I) þó að vottorð öryggisúttektar liggi ekki fyrir.