Markmið leiguskrár

Markmið leiguskrár er að koma á skráningu leigusamninga í opinberan gagnagrunn, húsnæðisgrunn HMS. Þannig fást betri upplýsingar um leigumarkaðinn, ekki síst um þróun leiguverðs, tegund og lengd leigusamninga, sem nýtist stjórnvöldum við stefnumótun í húsnæðismálum.

Lögfesting á skráningarskyldu leigusamninga og breytinga á leigufjárhæð er einnig liður í að tryggja betur en gert hefur verið fram til þessa framkvæmd þeirrar grundvallarreglu húsaleigulaga að leigufjárhæð skuli vera sanngjörn og eðlileg í garð beggja aðila, sbr. 37. gr. laganna.

Í framhaldinu skal Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fylgjast með þróun og ástandi húsaleigumarkaðarins í samráði við húsnæðisnefndir sveitarfélaga. Þá skal stofnunin vinna að stefnumótun á sviði húsaleigumála ásamt ráðuneytinu og annast greiningar, rannsóknir og útgáfu upplýsinga um leigumarkaðinn. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal enn fremur koma á framfæri við almenning upplýsingum er varða húsaleigumál auk þess að annast skráningu leigusamninga í húsnæðisgrunn.